Það er svo gaman að ganga saman

Við fórum í þessa gönguferð í fyrradag, laugardag. Veðrið var milt og stillt. Nema í veðurspánum. Þar gekk á ýmsu. Mikil bílaumferð var á öllum vegum og götum og hvert einasta stæði við verslanahallirnar teppt. Allir að kaupa. Kaupa, kaupa, kaupa.

Í IKEA er hægt að ganga lengi, lengi, lengi og skoða og skoða og þar var ótal margt fólk og einn karl á góðum aldri heilsaði mér vinalega, álengdar. Ég nikkaði á móti og sagði „Sæll“. Heldurðu ekki að hann sé að taka feil?“ spurði ég Ástu. „Það veit ég ekki,“ svaraði hún. „þú hlýtur að vita það.“ „Nei, ég veit ekkert um það.“

Í anddyrinu stóð ungur glæsilegur maður, brosandi og bauð Neyðarkalla. Við fjárfestum í tveim. Einum á mann. Hver veit hvenær hann þarf á hjálp að halda?

Tveir kallar í neyð
Tveir kallar í neyð

Svo ráfuðum við áfram, skoðuðum verðbreytingar frá því við gengum síðast. Það er langt síðan. Svo fundum við skápinn. Skápinn. Þennan sem við höfum ætlað að kaupa og fara með upp í Litlatré. Það er fataskápur. Hann er ekki stór því Litlatré er lítið. Ásta hafði stundum farið og mælt hann og svo hafði hún látið mig mæla fyrir honum í kofanum okkar.

Skápurinn virðist passa bærilega. Hann er rúmgóður og hægt að geyma heilmikið af fötum og taui í honum. Ég samgladdist Ástu. Hún hefir alltaf verið sérlega flink í innanhúss arkitektúr. Látið mig vita það. Eftir fimmtíu ára hjónaband. Svo mældi ég skápinn einu sinni enn og langaði að vita hvað pakkinn sem hann er í væri stór, hvort hann kæmist í bílinn okkar og hvað þungur hann væri, hvort við réðum við að bisa honum inn í kofann.

Ég veifaði strák, löngum og mjóum strák merktum IKEA. „Komdu ljúfur og leiðbeindu mér svolítið.“ „Ég má það ekki, ég er í starfsþjálfun,“ sagði hann. „Ertu í starfsþjálfun,“ spurði ég „ég skal þjálfa þig væni minn, það er nú einfalt.“

Svo spurði ég hann um þetta og hitt og hann sagðist ekkert vita um það. Þá spurði ég hann hvort hann gæti ekki lesið á miðana og útskýrt fyrir mér hvað það þýddi. Og hann las á miðana og útskýrði fyrir mér og skrifaði á miða og sagði að ég fengi svör í gangi 14 B. Þetta gekk vel og ég þakkaði honum og spurði hvort hann hefði ekki þjálfast talsvert hjá mér. „Jú, líklega,“ svaraði hann. Hann var samt feiminn.

En skápurinn sem hafði kostað um 14,000 í fyrra kostaði núna 22.900. „Ósköp vorum við aum að kaupa hann ekki í fyrra,“ sagði ég. „Við áttum ekki fyrir honum þá,“ sagði Ásta. „Og eigum enn síður núna,“ sagði ég. Svona eru örlög fátækra.

Við ráfuðum áfram og skoðuðum margt og svo var þarna skál sem kostaði 350 krónur og ég spurði Ástu hvort ég mætti kaupa hana og hún sagði „Keyptu þá tvær.“ Þegar við gengum framhjá matsalnum kom þessi sterki ilmur af sænskum kjötbollum og Ásta leit á mig, sennilega til þess að gá hvort ég slefaði.

Týrus, þessi elskulegi vinur okkar, svartur retriever, blessuð sé minning hans, var nefnilega þannig að þegar hann fann sterka matarlykt þá fór hann að slefa og réði ekki neitt við slefuna. En biðröðin við afgreiðsluna í IKEA var svo löng og fólk sitjandi við hvert einasta borð að það var engin leið að hanga þar í hálftíma bara fyrir kjötbollur.

Við gengum niður stigann.

Eitt andsvar við „Það er svo gaman að ganga saman“

  1. Ha ha yndisleg færsla

    Týrus já ég man sko eftir slefinu það varð nú ekkert smá slumma sem myndaðist þegar þú komst með einhvað spennadi úr eldhúsinu og stundum skildi hann slummuna eftir í fötunum mínum þegar ég var að knúsa hann hann var alveg yndislegur.

    kossar og knús Ásta Tóta

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.