Ljóðakeppni – sjö orð úr grunnskóla

Hugur

Hjartað hefur ástæðu
sem hugur
skilur ekki.

Þetta er eitt af ljóðunum úr ljóðakeppni grunnskólanema sem Íslensk málnefnd og Samtök móðurmálskennara stóðu fyrir í tilefni aldarafmælis Steins Steinars. Höfundur ljóðsins er Laura Alejandra Salinas Moreno nemandi í Austurbæjarskólanum. Samkvæmt Morgunblaðinu í morgun.

Það er ánægjulegt að staldra við hugsun ungmennisins. Ekki síst á tímum eins og við lifum nú, þegar glapsýn hefur hrakið okkur afleiðis og út í skurð. Við lestur orða Lauru Alejöndru Salinas rifjast upp að hugsunin sem hún setur fram í sjö orðum hefur verið með mannkyni í að minnsta kosti 3300 ár.

Á tímum Móse var ákvæði sett fram um að „elska Guð af öllu hjarta og öllum huga…“ Ýmsir fella sig ekki við að Guð sé í þeirri mynd, aðrir líta á Guð sem „kærleikann sjálfan“ og kjósa að hafa hann með. Af því að án kærleika er líf manna án þeirrar vökvunar sem þeim er nauðsynleg.

Kristur undirstrikar þetta 1300 árum síðar og bætir við: „…og náungan eins og sjálfan þig.“ af því að tvennt þarf til. Í fyrsta lagi að rækta kærleikann í brjósti sínu og í öðru lagi að veita honum til náungans. Í því samhengi er talað um lifandi vatn sem streymir.

Blaise Pascal (1623-1662) talar um „rök hjartans“ í Hugsunum sínum. Og að lokum, Stefán Snævarr, heimspekingur, segir í bók sinni Ástarspekt sem kom út 2004: „Ekki andæfi ég þó skynseminni nema síður væri en legg áherslu á að vísindin hafi engan einkarétt á skynsemi. Gæskan og fegurðin eiga líka sinn hlut.“ (Bls.11)

Bravó fyrir ungu grunnskólaskáldunum

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.