Moggi einu sinni enn

Það var með allnokkurri eftirvæntingu sem ég sótti sunnudags Moggann niður í anddyri í gærmorgun. Fyrir tveim vikum hafði verið tilkynnt, – um leið og Morgunblaðið og Fréttablaðið háttuðu ofan í sama rúmið og fjarlægðu 24 stundir af heimilinu,- að verulegar breytingar myndu verða á helgarblaði Moggans.

Í fáum orðum sagt þá fór forsíðan illa í mig. Ég margfletti blaðinu og komst ekki frá þessari leiða tilfinningu. Mér hefði fundist fara betur á því að hefja nýjan Mogga með stóru viðtali við venjulegan Íslending. Karl eða og konu sem þurfa að beita allri sinni lífsgetu til að takast á við nýtt líf á Nýju Íslandi til að komast af. Þannig fólk er í mínum augum Ísland í dag.

Það eru ekki fregnir af allsnægtafólki sem höfða helst til okkar óbreyttra lesenda blaðsins til hálfrar aldar. Við finnum fremur samlíðan með blinda manninum á baksíðunni sem glímir við að taka þátt í lífinu, skertur. Á landinu eru kjör alltof margra skert um þessar mundir og ekki fyrirséð hverjir komast af. Það mundi ekki saka að auka hlut þeirra nokkuð í umræðunni.

En auðvitað velur Mogginn sér sjálfur farveg, félaga og lesendur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.