Ekki á morgun heldur hinn

Við sátum við Horngluggann í morgun, hjónakornin, sötruðum kaffi og höfðum það matt.

Nefndum einstaka mál á milli sopa. Undrumst úrskurð Þórunnar um umhverfismatið og umræðu stjórnmálamanna þar um. Sjaldan hafa þeir verið jafn ótrúverðugir og þessar vikurnar.

Upplifum tómleika yfir hagnaði bankanna sem sóttur er í vasa almennings sem á enga vörn í stöðunni sem stjórnmálamenn hafa samþykkt og blessað.

Sýnist að meðferðin á Ólafi F. í Kastljósinu einkennist af þeirri trú spyrils að Ólafur sé minnimáttar og auðvelt að taka hann.

Hlæjum þegar Páll Magnússon sakar Ólaf F. um hroka.

Minnumst Solzhenítsyns. Hann var hluti af heimsmyndinni á síðustu öld og gagnrýndi Sovét af einurð. Draumaland ýmissa Íslendinga.

Mánaðardvöl í Litlatré er lokið. Heimkomin erum við sátt að mestu. Og þakklát. Hefðum gjarnan viljað vera mánuði lengur.

Það neikvæða er að ekki hefur rignt í uppsveitum Borgarfjarðar, að heita má, í tvo mánuði. Bóndi einn kvaðst kvíða því að ekki fengist nægt hey af túnum hans.

Maríuerlurnar hafa komið daglega, kvölds og morgna, í flugu- og fiðrildaveislur. Ungarnir þeirra hafa ekki uppgötvað enn að vissara sé að varast mannfólk.

Hversdagurinn kemur svo, ekki á morgun heldur hinn. Það er líka blessun í því.

Eitt andsvar við „Ekki á morgun heldur hinn“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.