Djúpar lægðir og sálarlíf manna

Þetta var eldri maður, tæplega meðalmaður á hæð, tággrannur. Hann bjó við þau heilsufarslegu kjör að lægðakerfi veðurfarsins fóru yfirleitt í gegnum hann. Það er að segja, bæði líkama og sál. Hann varð veikur þegar þær gengu yfir.

Eins og oft vill vera á Íslandi þá töluðu þeir sem til hans þekktu um móðursýki í kallinum. Það hjálpaði ekkert, hann fór undir sæng þegar lægðir voru hvað dýpstar og skalf og skelfdist. Þessi vinur, sem er löngu látinn, hefur verið í huga mínum svo til allan þennan septembermánuð, þar sem hver djúpa lægðin eftir aðra hefur farið yfir landið hægt og rólega og blásið ógurlega og gusað regni. Ósköp held ég að maðurinn, sem var hinn vænsti maður, hefði þjáðst þessa daga.

Svo þekkti ég konu sem lægðirnar verkuðu þveröfugt á. Þannig að þegar stormar geisuðu af offorsi með rigningu og sterkum vindhviðum, þá tók hún að syngja. Ein við eldhússtörfin. Syngja. Já, ég segi það aftur. Sæl og glöð í sinni. Og hún átti það til að klæða sig í gönguföt og fara í stórar göngur þegar veðrið var hvað ákafast. Stundum fór ég með henni og við nutum þess að láta regnið bylja á andlitum okkar. Þetta var hún móðir mín kær. Blessuð sé minning hennar.

Líklegt er að veðrasvörun í fólki sé genetískt fyrirbæri. Hvernig ég merki það? Jú, mér verður stundum á að syngja út í veðrið þegar það hamast hvað mest og naut mín úti við. Haustmánuður hefst í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.