Helgi og Hannes – munúð

Frost hefur legið á dag eftir dag. Vikur. Og logn. Svifryk mælst yfir heilbrigðismörkum við ein gatnamót. Lungnaveikir hóstað í sundur rifbein. Kliður farið um fjölmiðla. Fólk hvatt til að leggja bílum, afnagla dekk, ferðast með strætó, hjóla eða ganga til vinnu. Vinirnir Helgi og Hannes sitja í dag við Sólarskipið. Hannes hefur vafið trefli um höfuðið á sér. Það er mjó rifa fyrir augun.

Helgi: Hann er kaldur.
Hannes: Já.
Helgi: Og nístir.
Hannes: Já.
Helgi: Þú ert með trefilinn.
Hannes: Já.
Helgi: Eins og hryðjuverkamaður.
Hannes: Nú?
Helgi: Það sést bara í augun.
Hannes: Hvað með það?
Helgi: Þú þekkist ekki.
Hannes: Kannski er ég ekki ég. Kannski er ég einhver annar.
Helgi: Ég þekki þig alltaf.
Hannes: Hvernig þá?
Helgi: Á múnderingunni.

Hannes losar um trefilinn. Tekur hann síðan af sér hægt og vandlega. Brýtur hann saman og leggur á annað hné sitt. Þeir horfa yfir sundin. Nokkrir ferðamenn ganga með sjónum. Hannes tekur að iða í sætinu. Það er eins og hann sé að sækja í sig kraft til að segja eitthvað.

Hannes: Mér finnst mikið mál að þær séu góðar í rúmi.
Helgi: (forviða) Ha?
Hannes: Já. Það er eiginlega úrslitamál.
Helgi: Úrslitamál?
Hannes: Já. Mér finnst það. Góðar í rúminu.
Helgi: Hvað er í gangi núna?
Hannes: Að það sé gott að eiga við þær í rúminu.
Helgi: Eiga við þær?
Hannes: Já. Ég fann það í gærkvöldi.
Helgi: Hvað fannstu?
Hannes: Hvað þær eru mismunandi.
Helgi: Mismunandi?
Hannes: Þessi var svo elskuleg.
Helgi: Þessi hver?
Hannes: Ég strauk hana og lét vel að henni og hallaði henni að brjóstinu á mér. Svo lagðist ég á hliðina við hliðina á henni og opnaði hana blíðlega. Strauk hana mjúklega með fingurgómunum. Fór svo með andlitið ofan í hana og andaði að mér. Hvílíkur ilmur.

Hannes lygndi aftur augunum og rifjaði upp munúðarstundina. Helgi horfði á hann með opnum munni. Hann var undrandi og gjörsamlega orðlaus. Hannes hélt áfram.

Hannes: Hvílíkur ilmur. Og mýkt. Maður.
Helgi: Ilmur?
Hannes: Já. Svo vaknaði ég í morgun með höndina á milli.
Helgi: ( roðnaði) Ertu að ljúga?
Hannes: Af hverju heldur þú það?
Helgi: Mér heyrist það.
Hannes: Asni ertu.
Helgi: Er ég asni?
Hannes: Það finnst mér.
Helgi: Um hvað ertu þá að tala?
Hannes: Ég er að tala um Crown.
Helgi: Crown?
Hannes: Já. Bók. Maður. Bók.
Helgi: Bók?
Hannes: Já. Bókarstærð sem er góð í rúminu.

Napur norðaustan andblær kom ofan úr Esju. Sjórinn hjalaði við fjörusteina með holu gjálfri. Vinirnir horfðu vestur yfir Örfirisey. Þöglir.

3 svör við “Helgi og Hannes – munúð”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.