Það fennir hratt í sporin

Bjartur og fagur dagur í gær.
Himininn skír. Norðaustan kaldi.
Ókum í sveit. Umferð var lítil.
Mættum þar grimmu frosti við jörð.

Tilefnið var að líta’ eftir húsi
Litlatré smáu á nöktum móa.
Fregnir af stormi, metrum á sek
tugum fjórum og hálfum betur,
spurningar vöktu í litlum lungum.

En allt var þar óhreyft.
Bundið vel og skorðað.

—-

Á heimleið var lundin létt og sinnið aftur
lítandi allt sem fyrir augu bar.

Í högum stóðu hross í höm á flestum bæjum.
Útigangsnautin, kennd við hold og steikur,
kjöguðu hæglát milli töðubagga.
Smáfuglar lágflug stunduðu í flokkum.
Blásvartir hrafnar veltu sér við fjallsbrún.
Straumandarhjónin köfuðu í ála.

Ær bitu grös í skjóli undir börðum.
Hrúta í stíum brundtíðina dreymdi.
Hvergi gat hund að líta kringum bæi.
Gufuský hæglát stigu eins og draugar
úr götóttum leiðslum Borgarfjarðarveitu.
Örlög þeirra gjarnan af gaddavírum ráðin.

Svo var það í morgun við Horngluggann hér heima
að hjónin litu út og engin merki sáu,
um ferðina góðu sem farin var í gær.

Þannig er með lífið það fennir hratt í sporin.
Og ferðalögin gleymast bæði stór og smá.

Eitt andsvar við „Það fennir hratt í sporin“

  1. Ég sé að fleirum en mér hefur verið mikið um þessar fallegu myndir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.