Manntafl – Stefan Zweig

Áhrifin af lestri bókarinnar fyrir um fimmtíu árum voru feikn mikil og ógleymanleg. Frásögnin af því þegar allir farþegar skipsins, sem var á leið til Argentínu, söfnuðust saman í samkomusal þess til að sjá söguhetjuna, dr, B, tefla við heimsmeistarann í skák. Öll sagan, glíma mannsins við djöfulinn og lýsingin á fyrrnefndum skákatburði, kom upp í hugann allar götur síðan í hvert skipti sem meistari Zweig var nefndur.

Í Borgarleikhúsinu í gær, í hráum og ljótum Nýja sal, sáum við Manntafl leikið af Þór Túliníusi. Einum. Ég hafði reynt að sleppa því að sjá leikritið af ótta við að það ylli vonbrigðum. En sitjandi uppi með nokkurt magn af gjafakortum, bæði frá góðum vinum svo og sparisjóði einum, en hans gjafir eru af svo fátækum anda að þær missa gildi eftir skammtaðan tíma og hætta að vera gjafir. Ákváðum því, hjónin, að nota eitt kortanna í gær.

Ásta var ánægð. Hún nýtur þess að fara í leikhús svo og innan um fólk á góðri stund. Hún hafði heldur ekki lesið bókina sem vafalítið hefur hjálpað til. En ég varð fyrir vonbrigðum. Ekki með leikarann. Hann skilaði óaðfinnanlega því sem af honum var ætlast. En hugmyndin um að segja söguna með einum leikara er alveg út í hött. Basta.

Það er ekki hægt að líkja Manntafli í Borgarleikhúsinu við það ógleymanlega verk Ég er mín eigin kona, sem sýnt var í Iðnó. Þar túlkaði Hilmir Snær klæðskiptinginn Charlotte von Mahlsdorf sem og þrjátíu og fimm aðrar persónur á fullkominn hátt. Ef hann er til. Það var meistaraverk. Það eina sem þessi tvö verk eiga sameiginlegt er djöfull sem hefur það markmið að leggja fólk í einelti og tortíma því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.