Í tilefni dagsins

Það er hádegi. Góður dagur fram að þessu. Hófst með sérlegu eftirlæti. Fékk að aka Ástu í vinnuna. Það var eftir Horngluggann og morgunkaffið. Þar sem við rifjuðum upp. Svo ókum við saman. „Hvaða leið er best?“ spurði ég. „Þessi og beygðu svo þarna,“ sagði hún. Og allur heimurinn var að fara í vinnuna líka og ók eins og brjálað fólk. Ég reyndi að treina mér ferðina.

Á áfangastað var Ásta komin í vinnugírinn. Smituð af ærðri umferðinni. Hætt að tala. Tók töskurnar sínar úr aftursætinu og sagði „sí jú bæ“ og lokaði bílhurðinni. „Bless elskan,“ sagði ég, en þá var hún horfin fyrir húshorn. Ók svo rólega heim. Það er reyndar ekki satt. Umferðin hvæsti og urraði og þrýsti mér á hundrað.

Þegar líður á daginn ætla ég að elda eitthvað ljúffengt handa okkur. Í tilefni dagsins. Og kveikja á kertum og setja afskorin blóm í vasa. Í tilefni dagsins. Loks fæ ég að sækja Ástu í vinnuna en Yarisinn hennar er í snyrtingu. Svo setjumst við niður og rifjum upp þegar séra Jón Thorarensen gaf okkur saman fyrir fjörutíu og átta árum. Í Neskirkju. Það var dagur blendinna tilfinninga.

Það er síðdegi. Góður dagur fram að þessu. Óvænt fékk Ásta sig lausa úr vinnu upp úr hádegi. Ég sótti hana. Saman fórum við og keyptum í matinn. Svolítið svona. Já og svona. Ákváðum að elda „buffaló“. Það var eitt sinn jólamaturinn okkar. Svo fórum við og keyptum blóm. Sjö bleikar rósir. Í tilefni dagsins. Og Asti. Þvínæst dóluðum við vestur í bæ og keyptum séra Matthías. Í tilefni dagsins. Þeir gefa fimmtán hundruð krónu afslátt í forlaginu.

Hvað svo? „Ég býð í kaffi. Hvert getum við farið?“ sagði ég. „Ég veit um stað. Hann er í leiðinni,“ sagði hún. Við fengum cappuccino og ostatertubita. Sukk. Í tilefni dagsins. Loks sóttum við bílinn hennar og hún ók í hármeðferð. Ég fer að undirbúa matinn. Reyni að leggja mig fram. Set hjartað í starfið: Steiktur laukur, brúnaðir sveppir, buff á pönnu, kartöflumús, spælegg, tómatar. Ís í eftirrétt. Í tilefni dagsins.

Það er komið kvöld. Ég spila þetta fyrir hana:
smellið hér

Kannski dönsum við þegar rökkvar.

Eitt andsvar við „Í tilefni dagsins“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.