Skálholt – góðir dagar

Við áttum boð í Skálholt. Kristinn og Harpa buðu okkur í heimsókn með gistingu. Fórum við þangað full af eftirvæntingu um hádegisbil á laugardag. Bjart var yfir landinu, heiðskírt og sólin glaðleg.

Kristinn var í sumar ráðinn rektor við Skálholtsskóla og tók hann við starfinu í ágústmánuði. Harpa konan hans er einnig starfsmaður skólans. Sautján manns starfa við stofnunina sem auk þess að vera skóli og menntastofnun rekur gistihús og veitingasölu. Kom okkur á óvart að sjá hús, hýbýli og alla aðstöðu staðarins og að heyra af því margbreytilega starfi sem í Skálholti er sinnt.

Vafalaust hafa flestir heyrt af svokölluðum kyrrðardögum skólans, en þeir hafa með hverju ári orðið eftirsóttari svo og sumartónleikar í hinni miklu kirkju staðarins. Vísa ég hér til heimasíðu Skálholts um starfsemi skólans og Skálholtsstaðar.

Það má nefna það til gamans að í gær á sunnudegi var búið að dekka borð fyrir hundrað manna ættarmót fólks úr sveitinni og undir kvöld var svo von á áttatíu útlendingum í mat og gistingu í fimm daga. Á góðum degi koma allt að sautján rútubílar við í Skálholti til viðbótar einkabílum sem stöðugt fara þar um.

En við Ásta vorum þarna í einkaheimsókn hjá Kristni syni okkar og Hörpu tengdadóttur og nutum gestrisni þeirra og elsku í öllum atriðum, ótrufluð af erli staðarins. Í gær fórum við saman til messu í hina miklu kirkju þar sem sóknarpresturinn, séra Egill Hallgrímsson, prédikaði og þjónaði fyrir altari.

Í messulok var altarisganga, kropið við gráturnar og þegið af brauði og víni í minningu Drottins Jesú Krists sem sagði: „…gerið þetta í mína minningu“. Söknuðum við þess að í kirkju þessa sögufræga staðar var hvorki organisti né kór við messuna.

Hér fyrir ofan, frá hægri: Biskupssetrið, skólinn og hús rektors

Eitt andsvar við „Skálholt – góðir dagar“

  1. Við Kalman óskum ykkur innilega til hamingju með soninn og fjölskyldu hans og óskum þeim gæfu og gengis í sínu starfi.
    Það var svo gaman að skoða þessar fallegu mydnir á ánægjulegum degi ykkar Ástu.
    Bestu kveðjur, Bryndís og Kalman.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.