Vinátta ruslakistunnar

Sunnudagur 16.07.06. VSV 2-5 m/s. Alskýjað. Hiti + 8°C. Loftþr. 1011.9 m/b, hækkandi. Blautir dagar að baki? Vonandi. Þeir síðustu hafa verið svo ljómandi vatns- og vindríkir. Hér um slóðir að minnsta kosti. Bækur hafa því fengið meira vægi en á sólardögum. Ásta les Barndóm og heyrist kumra af ánægju.

Sjálfur hef ég verið að ljúka sögu Singers af töframanninum Jasia og skrautlegum ævintýrum hans. Bókarlokin eru mögnuð. Þá vill svo til að höfundurinn, Isaac Bashevis Singer, átti sinn fæðingardag í vikunni, 14. júlí. Hann var fæddur 1904. Eftir hann lifir, meðal annarra korna, þessi setning: „Ruslakarfan er besti vinur rithöfundarins.“ Ég minnist samtals við dr. Þóri Kr. Þórðarson hvar hann sagði m.a. að mesti vandi höfunda væri að strika nógu mikið út. Þá sögðu ýmsir fræðimenn um stíl Hemingway’s að hann einkenndist af knappleika. Og fannst sumum þeirra nóg um.

Það yrðu ekki mörg orð eftir í mínum pistlum ef vinátta við ruslakörfur stæðu öðrum vináttum framar. Sei, sei, nei. Á þó í fórum mínum frá unglingsárum svarta handskrifaða bók sem ber nafnið Ruslakista. Í hana skrifaði ég hugmyndir og tilraunir að vísum og vísupörtum. Þar í er meðal annars þessi, sem varð til yfir syni okkar Ástu, Jóni Gils, nýfæddum. Ásta hafði nýlokið við að baða piltinn og lá hann og spriklaði ofan á þykku handklæði á eldhúsborðinu, brosandi og alsæll með tilveruna:

Svo tannlaus þú gapir það bros er blítt
og birtu veitir um nætti.
Ef burtu þig tæki, það skrambi skítt
af skaparanum mér þætti.

Svona getur hrokkið út úr manni. En Jón Gils heimsótti okkur einmitt í gær. Borðaði með okkur „Buffaló“, fjölskyldurétt sem svo er nefndur og sagði frá verkinu sem hann vinnur við á Grænlandi um þessar mundir. Og svo rifjuðum við upp hin ýmsu atvik liðinna tíma og æskustunda. Eins og gengur og hlógum og nutum ástríkrar samveru. Á heimleiðinni í gærkvöldi kom hann fyrstur að bílveltu undir Hafnarfjalli. Baslaði hann við að ná bílstjóranum út úr bílnum, ásamt fleirum sem bar að.

En nú er heldur að birta til úti og áform okkar Ástu um göngu niður að á gætu orðið að veruleika. Göngur eru afar hollar og góðar fyrir geð og bein, eins og alþjóð veit. Enda reynir maður stöðugt að komast hjá þeim!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.