Blátönn á bökkum Hvítár

Þetta er tilraunasending. Við erum hjónakornin stödd í Litlatré á bökkum Hvítár. Erum að vígja þráðlaust samband um farsímann okkar og blátannartengingu. Það hefur ekki gengið átakalaust að samhæfa apparötin, blátönn og nokia símann. Hafa nokkrir leikmenn í tölvufræðum gert tilraunir til að koma sambandinu á án árangurs. Loks var leitað til fagfólks. Það brosti góðlátlega, kom sambandinu á án átaka og útbjó reikninginn brosandi.

En semsagt, við erum stödd hér úti í mörkinni eins og sagt er og gerum þessa tilraun. Það er sólskin, vindur norðaustan 5–8 m/s, hiti + 14 gráður, loftþrýstingur 1001,1 mb. Ásta situr úti á palli og leysir krossgátu með annari hendi, snæðir banana með hinni. Bændurnir á Sámstöðum eru að hefja heybindingu á heimatúninu. Það má segja að allt sé í lukkunnar velstandi, eins og stundum er komist að orði.

Allt nema málefni maríuerlunnar. Hún var hérna á miðvikudaginn í miklum önnum við ormasöfnun og gladdi okkur að venju. Settist á bílþakið og hámaði flugur, kom á sjónvarpsloftnetið og brýndi gogginn og sýndi flugkúnstir á milli. Á föstudag var hún horfin. Gjörsamlega horfin og ekkert til hennar spurst síðan. Það er mikill söknuður að henni.

Nú læt ég staðar numið að sinni. Geri nú tilraun til að koma þessum fyrsta pistli þráðlaust á netið. Við sjáum svo til hver þróunin verður í þeim málum. Bestu kveðjur frá okkur í Litlatré.

Eitt andsvar við „Blátönn á bökkum Hvítár“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.