Gömbutónleikar og hundrað ára afmæli

Við fórum af stað um hádegi. Ásta ók sínum „risasmáa og sæta“ Yaris. Ég var farþegi og iðkaði akstursleiðbeiningar eins og tengdamóðir mín sáluga gerði gjarnan. Blessuð sé minning hennar. Leiðin lá austur yfir Hellisheiði. Það var vestan stinningskaldi og rigning og allnokkur umferð. Undanfarna mánuði hafa allar okkar leiðir legið upp í Borgarfjörð.

Nú var ferðinni heitið að Skálholti á gömbutónleika. Ókum við austur Flóa og upp Skeið. Nokkur ár eru síðan við ókum þessa leið. Umferð var skapleg. Jeppakörlunum lá þó óþarflega mikið á enda stoltir af dekkjastærðinni undir bílunum. Það var fallegt í Skálholti. Tún og engjar græn og grasið næstum blátt eins og Kiljan lýsti því. Litir jarðar eru ævinlega skarpari í vætutíð. Rútubílar voru á stæðunum. Ferðamenn tíndust inn í þær. Við gengum til kirkju.

Hljóðfæraleikararnir Alison Crum, sem lék á bassagömbu, og Roy Marks sem lék á teorbu voru að koma sér fyrir. Roy stillti hljóðfæri sitt. Teorba er væntanlega sjaldgæft strengjahljóðfæri. Hefur sex strengi á hálsinum og átta strengi þar fyrir ofan. Alls fjórtán strengi. Á efnisskrá voru verk eftir Marin Marais (1656 – 1728). C.Ph.E. Bach (1714 – 1788). Þá óþekktan höfund og loks Francois Couperin og Johannes Schenck.

Alison strauk boganum yfir strengi bassagömbunnar af mikilli fimi og í sumum verkunum dönsuðu fingur hennar glæsilega um háls hljóðfærisins. Roy plokkaði strengina á teorbunni og strauk þá mjúklega með fingurgómi á milli. Náðu hljóðfærin vel saman. og var samspil þeirra skemmtilegt, öruggt og vel þjálfað. Roy Marks segir í prentaðri kynningu um lokaverkið: „Vera má að það hafi verið ætlun tónskáldsins að unnt væri að flytja verkið án undirleiks. Bassinn hefur þó visst sjálfstæði og vonandi virkar hljóðheimurinn af samspili strokinna og plokkaðra tóna jafnvel á áheyrandann og hann gerir á okkur.“

Eftir tónleikanna ókum við niður Grímsnes og að Kiðjabergi þar sem heiðurshjónin Hilmar Teitsson smiður og Ingibjörg Þóra eiginkona hans héldu upp á hundrað ára afmæli sitt á glæsilegu sveitasetri sínu. Var þar samankomið margmenni og glatt á hjalla. Var talsverð þröng á þingi þótt húsrýmið sé mikið og glæsilegt. Óskum við þeim hjónunum innilega til hamingju með tímamótin og lífið og tilveruna.

Myndin hér fyrir ofan er af þeim Hilmari og Ingibjörgu í heimsókn í Litlatré í fyrra. Smellið á myndirnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.