Helgi og Hannes – Trefillinn

Þeir ganga inn með Sæbraut. Sjávarmegin. Nokkuð er um göngufólk og einstaka manneskja hjólar. Helgi skoðar hvert reiðhjól sem framhjá fer. Þegar hávaxinn karlmaður kemur á gamaldags hjóli með háu stýri og situr fattur, er í flaksandi skyrtu, alltof stuttum buxum og reykir vindil, má engu muna að Helgi fari úr hálsliðnum. Hann horfir lengi á eftir náunganum.

Hannes: Ertu frosinn?
Helgi: Þetta er fallegt hjól.
Hannes: Bara gamaldags hjól, er það ekki?
Helgi: Mjög fallegt hjól.
Hannes: En það eru engar græjur á því.
Helgi: Það er fegurð.
Hannes: Er það fegurð?
Helgi: Já.
Hannes: Fannst þér maðurinn ekkert skrítinn?
Helgi: Nei. Bara flottur. Flottur maður með vindil á flottu hjóli.
Hannes: Mér fannst hann skrítinn.

Þeir koma nú að Sólarskipinu og setjast á hlaðinn steinkantinn. Sjórinn er sléttur. Birtan svífur í hægri undiröldu sem kemur frá bátum utar á sundinu. Skúta með seglum er fjær. Þeir horfa.

Helgi: Þú ert með trefil?
Hannes: Já.
Helgi: Af hverju ertu með trefil í svona veðri?
Hannes: Bara.
Helgi: Og bindur um munninn á þér?
Hannes: Já.
Helgi: Er eitthvað að þér í munninum?
Hannes: Nei.
Helgi: Hvað þá?
Hannes: Ég get ekki lokað honum.
Helgi: Getur þú ekki lokað honum?
Hannes: Nei.
Helgi: Af hverju?
Hannes: Ég er með nýjar tennur.
Helgi: Ertu með nýjar tennur?
Hannes: Já.
Helgi: Hvenær fékkstu þær?
Hannes: Í gær.
Helgi: Nú, já. Má maður líta á gripina?

Það líður nokkur stund. Þeir horfa út á sundið. Gámaskip dólar í átt að Sundahöfn. Hannes ekur sér vandræðalega. Loks losar hann um trefilinn. Helgi snýr sér að honum. Glennir upp augun og starir smástund. Síðan horfir hann aftur út á sjóinn. Hannes vefur treflinum aftur um háls og munn. Þeir horfa báðir út á sjóinn.

Helgi: Gastu ekki fengið minni?
Hannes: Hafði ekki efni á tannsmið.
Helgi: Þessar eru nú samt of stórar.
Hannes: Það er ekki á allt kosið.
Helgi: Er ekki á allt kosið?
Hannes: Nei.
Helgi: Hvað áttu við. Hvar fékkstu þær?
Hannes: Týndum munum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.