Þrír sigrar í mígandi rigningu

Ásta fór með mig niður á Reykjavíkurhöfn. Hún hafði gefið Marinu loforð um að fylgjast með kappróðrinum. Til skýringar skal tekið fram að Marina er tengdadóttir okkar. Loforðið var gefið í gær. Þá rigndi ekki neitt. Og við ókum af stað um tvö leytið. Það rigndi mikið. Og bætti í regnið. Ég er ekki frá því að Ásta hafi sagt Jesús minn. Svo þegar við komum undan Kópavogsbrúnni lagði hún til að við snérum við.

„Nei, væna mín. Þú lagðir þetta til og sleppur ekki svo vel.“ Og enn bætti í regnið. Skýfall. Við ókum um höfnina og lögðum bílnum loks uppi á Ránargötu á móts við hús númer 21. Og enn rigndi. Það bjargaði Ástu að hún hafði tekið með sér regnhlífina mína. Minjagrip um Parísarferð. Keyptum hana á St. Michel á móts við Jardins du Luxembourg hjá afskaplega ljúflegum manni í lítilli búð. Tvær tröppur upp. Og regnhlífin söng á frönsku í rigningunni.

Við hittum Gunnbjörgu með barnahópinn við verbúðirnar. Og enn rigndi. Í hópnum voru Kristín Lív, Hanna og Sigursteinn. Og það bætti í regnið. Við gengum í átt að Miðbakka. Þar var fátt fólk. Biðum eftir róðrarkeppninni. Allt í einu birtust Hrönn og Friðrik. Það var elskulegt að hitta þau. Ég fékk að kyssa Hrönn. Svo kynnti ég þau fyrir regnhlífinni. Mér sýndist ekki vera þurr þráður á Hrönn. Friðrik talaði um sjóhatt í felulitum. Hann ætlar að drepa hreindýr í sumar.

Klukkan liðlega hálffjögur hófst róðurinn sem átti að hefjast klukkan þrjú. Óvenjugott á útihátíð á Íslandi. Marina og hennar áhöfn urðu númer tvö og fengu bikar. Þær fá alltaf bikar. Duglegar stelpur. Og harla ánægðar með sig. Við biðum eftir næsta riðli. Konurnar í hópnum okkar voru farnar að skvaldra um fánýt efni. Aldursmun í hjónaböndum og ámóta hjal. Við Ásta gáfumst upp á biðinni. Héldum áleiðis í bílinn. Enn rigndi.

Næsti sigur var einstaklega ljúfur. Það var þegar heim var komið. Í sjónvarpinu. Íslendingar og Svíar. Bravó, bravó, bravó. 32:28. 32:28. 32:28. Á móti Svíum. Gulu treyjunum. 32:28. Regninu slotaði. Svo hætti að rigna. Pældu í því. Eftir leikinn hengdum við af okkur blaut fötin. Fórum í þurr og hituðum upp afakjúkling. Góður dagur og gott fólk. Sjómannadagurinn 2006. En gróðurinn í Litlatré fagnar regni og hlýju. Það er þriðji sigurinn. Ásta kyssti mig á kinnina.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.