Dýrlegur matarilmur í húsinu

Indverskar kokkabuxur. Það er auðvitað ekki sama í hvaða buxum menn eru þegar þeir ákveða að slá til og elda sérlega máltíð fyrir vini sína. En eins og fólk veit þá eru ýmis málefni tengd buxum í íslensku máli. Má þar nefna t.d. það að „vera á biðilsbuxunum“ eða þá að „vera ekki á þeim buxunum“, „að vera með hjartað í buxunum“, „spila rassinn úr buxunum“ og einnig að „vera á báðum buxunum.“

Áætla ég að heimavanir gestir heimasíðunnar kannist við þessi orðatiltæki og útskýri þau því ekki nema kvartanir berist. En það er máltíð kvöldsins sem ég ætla að fara fáeinum orðum um. Indverskur matur hefur notið hylli í fjölskyldunni í tuttugu og fimm ár, eða síðan ég eldaði indverskan karríkjúkling sem hitti Ástu beint í hjartastað (ef hægt er að orða það þannig). Sá hefur hlotið nafnið „afakjúklingur“ í fjölskyldunni.

Síðan þá hef ég öðru hvoru, þegar geðið var í góðu lagi, fikrað mig áfram og bætt í safnið nokkrum tilbrigðum af indverskum mat. En eins og allir vita þá er, að sjálfsögðu, lykilmál hvers indversks réttar kryddblandan. Ég komst upp á sæmilegt lag með að laga mínar eigin kryddblöndur og í dag eru þær af þrem mismunandi gerðum, settar saman úr átta til tólf kryddtegundum og bragðefnum.

Matseðill dagsins samanstendur í fyrsta lagi af forrétti, fersku og lystaukandi grænmetissalati með fetaosti, appelsínu og kaldri jógúrtsósu. Síðan koma þrjú tilbrigði af indverskum kjötréttum. Tveir eru með lambakjöti, Balti sweet and sour, Roghan Josh Gosht úr Kasmírhérði og einn með kjúklingi í sætmildri karrísósu. Hann er hugsaður fyrir þá sem kynnu að kveinka sér yfir nýstárlegum og sterkum brögðum hinna réttanna.

Meðlæti með þessu er Yellow Dahl með steiktum lauk, Raita með döðlum og rúsínum, Mangó Chutney og auðvitað Basmati grjón. Til að vinna sósuna upp bakaði ég Naan brauð í gær (ný reynsla) en þau eru ómissandi með flestum indverskum máltíðum. Með þessu er drukkið kalt vatn með klaka. Í eftirrétt verður vanilluís með jarðarberjum, bláberjum og banönum og heitri sósu. Kemur hann úr deild Ástu.

En semsagt, það er ekki sama hvaða buxum menn klæðast þegar elda skal ljúffenga máltíð handa fólki sem þeim er annt um. En eins og alkunna er þá má tjá tilfinningar sínar í matargerð og er það ætlunin í kvöld. Ég er því á indverskum kokkabuxum og legg mig fram um að gera vinum mínum til hæfis. Við höfðum ætlað að vera átta saman en því miður þá komast ekki allir og sitjum við því sex að góðgerðunum. Það er dýrlegur matarilmur í húsinu og ég hlakka til kvöldsins og máltíðarinnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.