Helgi og Hannes – Á sjómannadaginn

Félagarnir hittust niður við höfn. Það rigndi einhver ósköp. Helgi teymdi reiðhjólið sitt og Hannes hafði aðra höndina á stýrinu. Þeir stönsuðu öðru hverju og horfðu þöglir á þær miklu breytingar sem orðnar voru frá þeim dögum þegar þeir voru ungir.

Helgi: Nú læsa þeir hliðinu að bryggjunum.
Hannes: Þetta var ekki svona þá.
Helgi: Nei. Það var ekki svona þá.
Hannes: Þá gat maður dorgað.
Helgi: Á bryggjusporðinum.
Hannes: Já. Og dinglað löppunum fram af.
Helgi: Þyrskling og marhnút.
Hannes: Og tekið á móti springnum þegar bátarnir komu að.
Helgi: Þá var gaman.
Hannes: Já. Þá var gaman.

Þögn. Þeir stóðu kyrrir og hugsuðu. Bílar fylltu allar gangstéttar eða siluðust um þröngar göturnar. Fólk gekk um. Sumir með regnhlífar. Skaut sér á milli bílanna sem rétt mjökuðust áfram.

Hannes: Svo gáfu þeir manni í soðið.
Helgi: Já, já. Ýsu og rauðsprettu.
Hannes: Eins og maður gat borið.
Helgi: Já. Eins og maður gat borið.
Hannes: Allt breytist.
Helgi: Flest.

Þeir gengu áfram. Stönsuðu við nýja Magna. Það bætti í rigninguna. Ræðutónn heyrðist í hátölurum. Orðaskil greindust ekki.

Helgi: Þeir flytja ræður.
Hannes: Það er venjan.
Helgi: Það hlustar enginn.
Hannes: Það er líka venjan.
Helgi: Það átti að vera kappróður klukkan þrjú.
Hannes: Honum seinkar áreiðanlega til fjögur.
Helgi: Það er víst venjan.

Sjórinn er spegilsléttur. Skemmtibátar dóla löturhægt um höfnina. Fólk röltir um. Helgi og Hannes fylgjast með. Hannes brettir upp kragann á úlpunni sinni. Það drýpur af húfunni ofan í hálsmálið. Enn bætir í regnið. Honum verður starsýnt á Helga. Horfir nokkra stund.

Hannes: Ég sé að þú ert kominn með gleraugu.
Helgi: Já.
Hannes: Er langt síðan?
Helgi: Nei.
Hannes: Ég hef ekki tekið eftir þeim fyrr.
Helgi: Nei.
Hannes: Þau fara þér vel.
Helgi: Já.
Hannes: Er ekki vont að vera með gleraugu í svona mikilli rigningu?

Þögn nokkra hríð.

Helgi: Það eru engin gler í þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.