Nærvera nærir

Dóttir mín Gunnbjörg bauð mér út í hádegismat í liðinni viku. Það hafa ætíð lifað sérstakir straumar vináttu á milli okkar. Frá fyrstu tíð. Strax nýfædd hjalaði hún við mig á kvöldin. Þegar ég kom heim úr vinnu setti ég hana gjarnan á skrifborðið mitt og sönglaði ofan í hana. Og hún sönglaði á móti. Þannig skröfuðum við tímunum saman. Án orða. Þetta var undir súð í fátæklegu húsnæði í úthverfi.

Nú ókum við inn Borgartún. Ferðinni var heitið í matsal hótels sem býður fjölbreyttan hádegisverð á þægilegu verði. Þar var nokkur erill. Sumir fengu sér ríkulega á kúfaða diska. Tvær konur sátu við borð og hvísluðust á. Líklegar ömmur. Svo voru þarna starfsmenn úr nágrenninu. Allir niðursokknir í ljúffengan mat. Við Gunnbjörg vorum matnett og orðfá þetta hádegið. Enda viðfangsefni okkar grafalvarlegt.

Þegar ég hafði litið í kringum mig rifjaðist eitt og annað upp sem tengdist hótelinu. Upphaflega var það byggt sem veitingastaður og hét Klúbburinn. Hann var aðalstaðurinn þau árin. Þangað sóttu bæði fínir og ófínir. Og margar sögur urðu til. Man eftir höfðingjum sem slógu upp Creme de Menthe veislu og hóuðu saman tíu til fimmtán kunningjum. Þegar kom að lokunartíma staðarins keyptu þeir starfsliðið til að þjóna fram undir morgun. Fyriræki höfðingjanna varð, því miður, gjaldþrota nokkrum misserum síðar.

Klúbburinn þessi var eiginlega byggður ofan í Fúlalæk, en hann kom sytrandi niður Kringlumýrina og var viðmið í verkalýðssamningum. Vinnuveitendur skyldu bæta launþegum upp fjarlægð og ferðir ef þeir störfuðu austan við Fúlalæk. Það kostaði átök þegar línan var færð inn að Grensásvegi og síðar Elliðaám. Ekki veit ég hvar hún er núna. Kannski er hún ekki til lengur.

Ég sagði Gunnbjörgu frá þessu. Með hléum. Einnig því þegar ég vann á jarðýtu hjá „bænum“, á tipp, og allir vörubílar bæjarins losuðu jarðveg þar sem nú er svæði SVR og Íslandsbanki vill endilega kaupa. Að síðustu sagði ég henni sögu af landsfrægum leikara, ljúflingi og áhugamanni um dularfræði og mystik. Sú saga gekk á þeim árum að hann hafi setið ásamt vinum sínum á Klúbbnum og fagnað einum eða öðrum atburði í lífi sínu.

Þegar liðið var á kvöldið og ribbaldar farnir að láta að sér kveða hafi einn þeirra sest hjá umræddum ljúflingi til að kássast upp á hann. Þegar dulfræðingurinn okkar svaraði hinum engu æstist dóninn og varð reiður. Endaði með því að hann drap í sígaréttu á handarbaki hins, sem brást við með mikilli sjálfstjórn, sat grafkyrr og lét engin svipbrigði í ljós. Dóninn flúði af hólminum. Sigraður.

Svo kvöddumst við Gunnbjörg mín við húsdyrnar hennar og við fundum bæði að nærvera gerir manni gott.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.