Allt í einu heyrðist öðruvísi rödd. Þær hafa reyndar komið fram öðru hvoru. Aðallega þegar byrjendur í stjórnmálum komu fram á sjónarsviðið. Þeir töluðu beislislaust til að byrja með. Stundum gneistaði af hugsjónaeldi þeirra og þeir virtust meina það sem þeir sögðu. Gallinn var bara sá að þeir kunnu ekki tungumál stjórnmálanna en á því máli er aldrei talað af einlægni.
Þeir bregðast ekki vananum frambjóðendurnir til borgarstjórnar Reykjavíkur. Þeir dilla skotti og reigja fjaðrir framan í kjósendur eins og alltaf áður. Það sorglega við það er að kjósendur heillast gjarnan af dillandi skottum og reigðum fjöðrum. Sérkennilegt! Nú er eins og allir reikni með því að hamingja Reykvíkinga felist í því að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. En kannski er auðveldast að gaspra um baráttumál sem ekki þarf að taka á í bráð og fela á bak við þau það sem brýnast er.
Nú virðist stefna í það að sjálfstæðismenn fái völdin í Borginni. Það er vel. Svo margt hefur R-fólkinu tekist illa. Sérkennilegast hefur verið að fylgjast með því hve lítilmagninn hefur verið lágt skrifaður og fáir haft áhuga á koma til móts við hann og bæta kjör hans að einhverju marki. Þar virðist allt skorið við nögl. Alltof stór hópur fólks býr við kjör sem eru fyrir neðan sæmandi viðurværi og alveg með ólíkindum hvernig stjórnmálahreyfing sem kennir sig við vinstri eitthvað, skuli ekki hafa gert betur í þeim efnum.
Þess vegna hitti hún mig rödd konunnar sem ákvað að bjóða sig fram og sagðist mundi helga krafta sína fólki og fjölskyldum sem ekki hefðu getu til að skaffa börnum sínum viðunandi aðstöðu og menntun til að laða fram og þroska jákvæða eiginleika þeirra, vegna fátæktar og félagslegra aðstæðna. En það er einn ömurlegasti bletturinn á ferli R-fólksins hve naumt það hefur skammtað til þessara mála og þar með haldið stórum hópi fólks föstum í niðurlægingu og vansæmd.
En allt í einu heyrðist rödd í gegnum gnýinn, rödd sem sagðist vilja helga sig þessum þegnum borgarinnar. Það var svo gott að heyra það. Vonandi verða það ekki orðin tóm, eitt skiptið enn.