…og horaða rjúpu étur.

Samveran hlaut nafnið vísnakvöld. Það var í september 2004. Þá leigðu þau sér sumarhús yfir helgi, uppi í Borgarfirði, Kristinn og Harpa, Brynjólfur og Ráðhildur og Gunnbjörg. Sumarhús þetta er skammt þar frá sem hirðingjakofi Ástu og Óla, Litlatré, stendur, og er steinsnar frá bökkum Hvítár. Fyrra kvöldið var setið hjá Ástu og Óla í mat og drykk af þægilegum brögðum og allskyns málefni rædd, bæði í gamni og alvöru og þó heldur meira af alvöru. Enda sumir gestanna langskólagengnir, einn með doktorsgráðu og annar hérum bil og sá þriðji litlu minna.

Seinni daginn var svo Ástu og Óla boðið yfir til hinna yngri á miðjum degi og skyldi nú vitsmunalegum umræðum haldið áfram af svipuðum þunga og daginn áður, en ákveðið að ljúka samverunni á léttari nótum. Þegar lokið var að ræða guðfræði, heimspeki, textafræði, bókafræði og útgáfumál, endaði kvöldið með flutningi vísna, ferskeytlna, og tvíræðra kviðlinga svo að út úr flóði. Þótti þar komin ástæða til að nefna samveruna vísnakvöld og lagt til að gera hana að árlegum atburði. En kannski hefði eins mátt kalla hana samdrykkju, eins og þeir kölluðu sína vitsmunafundi spekingarnir á tímum Platons og Sókratesar, samdrykkjur sem höfðu sama gildi og kvöldvökur hjá Íslendingum forðum.

Það var svo um liðna helgi sem annað vísnakvöldið var haldið. Vegna anna ýmissa þátttakenda gafst ekki tími nema fyrir einn sólarhring til að skiptast á skoðunum og deila þekkingu þetta árið og féllu því niður sumir dagsskrárliðir. En matur og drykkur voru fram borin í báðum húsum af rausn og ánægjulegum bragðgæðum og samræður tókust vel þótt ekki bæri öllum saman um greiningu á fugli einum smáum, gulleitum hnoðra, sem guðaði á glugga og krafðist hlutdeildar í veislunni sem ilmurinn í goggi hans og nefi skynjuðu.

Þá var og ekki eining um höfund rjúpusögunnar Óhræsið, þótt allir viti, inn við beinið að Jónas Hallgrímsson orti það, en ekki Jóhannes úr Kötlum, þótt bæði Hvítar kindur og Stjörnufákur hafi fengið litlar stúlkur til að gráta yfir þeim í bernsku. En örlög rjúpunnar, sem „Ein er upp til fjalla, yli húsa fjær…,“ eru ein þau kaldhæðnislegustu sem um getur í ljóði. Þegar rjúpan á æðislegum flótta undan grimmum fálkanum sem ætlaði að hremma hana smaug inn um gestagluggann og kastaði sér í kjöltu konunnar í dalnum, þá segir:

„Gæðakonan góða
grípur fegin við
dýri dauðamóða,-
dregur háls úr lið.
Plokkar, pils upp brýtur,
pott á hlóðir setur,
segir: „Happ þeim hlýtur!“-
og horaða rjúpu étur.

Langt mál mætti hafa um útleggingu á ljóði þessu. Til dæmis hvað það minnir átakanlega á bankastarfsemi nútímans. Gæti orðið viðfangsefni vísnakvölds næsta árs. Sjáum til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.