Rafspennubreytingar í heilastöðvum?

Það er með nokkru hiki sem ég nefni nafn Þorsteins Gylfasonar, prófessors við Háskóla Íslands. Það er auðveldara að nefna nöfn jafningja sinna. Ég hitti manninn einu sinni. Við vorum á leið út úr Háskólabíói eftir sinfóníuhljómleika. Ég heilsaði honum með handabandi og sagðist lesa bækurnar hans og að sumum barna minna hefði hann kennt og þakkaði honum fyrir hvorttveggja. Ég man enn hvað hönd hans var hlý og handtakið hæfilega þétt.

Þá á ég áritaða bók eftir hann, Tilraun um heiminn. Heillaðist af formálanum sem er eftir Þorstein. Síðar, í kaflanum Gerir heimspeki gagn? segir á einum stað: „Hugsum okkur að einhver hundingi segi að ástin sé ekkert nema kirtlastarfsemi. Allur fyrirgangurinn í tilhugalífi, allur fögnuðurinn og öll afbrýðin, öll ástarljóðin og ástarsögurnar, allir draumarnir um framtíðina og vegsömun hamingjunnar og fegurðarinnar: þetta eru ekki nema fáein lífræn efnasambönd sem spýtt er inn í blóðrásina á misjafnlega heppilegum tíma. Þetta væri einskonar efnishyggja um ást.“

Og síðar segir hann: „Þar með kennir hún (efnishyggjan) að hugsun eins og

– Þú ert yndislegasta stúlka í öllum heiminum-

sé ekkert annað en rafspennubreytingar í heilastöðvum unga mannsins sem hreyfir tunguna með þeim afleiðingum að þessar tilteknu hljóðbylgjur myndast í loftinu og erta hljóðhimnur stúlkunnar.“

Tilraun um heiminn. Gerir heimspekin gagn? Setningar eins og þessar fá einfaldan alþýðumann til að staldra við og lesa þær aftur. Og jafnvel aftur. Það er auðvitað eitt af gildum manna eins og Þorsteins þegar þeim tekst að fá venjulegt fólk til að staldra við og velta hugsunum fyrir sér. Og bæta í bótaeign sína í framhaldi af því til að víkka eitthvað í kollinum á sér. En auðvitað er sumt af því sem þeir segja dálítið kúnstugt og jafnvel skrítið.

Einu sinni nefndi Þórir Kr. Þórðarson við mig samdrykkju sem stúdentar höfðu stofnað til og var umræðuefnið um Guð. Þorsteinn Gylfason var þarna ræðumaður. „Hann er nú eitthvað skrítinn,“ sagði Þórir. Bókin, Tilraun um heiminn endar á þessum orðum Þorsteins: „Nema ég játi þá trú mína að í ríkjum mannanna skipti réttlæti meira máli en allt annað undir sólinni.“

Og hafandi lesið þau orð situr maður uppi með þá spurningu hvað réttlæti sé og hversu margar skoðanir séu á því og hvort einhver þeirra sé hugsanlega rétt. Er til svar við því?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.