Hvar er ástvin hjarta míns?

Matteusarpassía. Í öðru lagi er hún stórkostleg og sígild tónsmíð sem einstakur yfirburðamaður samdi. Í þriðja lagi er hún ódauðlegur texti sem hefur verið felldur að tónverkinu. Í fjórða lagi hljóðfæraleikur og í fimmta lagi söngur. Tveir kórar, drengjakór, tvær hljómsveitir og sjö einsöngvarar sáu um flutninginn. Og Hörður Áskelsson stjórnaði.

En í fyrsta lagi er þetta píslarsaga frelsarans, Jesú frá Nasaret, sem gaf líf sitt í lausnargjald fyrir alla menn: „Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb sem leitt er til slátrunar… …þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn.“ Prestar og fyrirmenn trúarinnar í samtíð hans, gallsúrir af öfund, létu krossfesta hann til að tryggja vald sitt og vegsemd.

Píslarsagan, í verki þessu, er sögð af einum lærisveina Jesú, Matteusi. Átakanleg frásaga af einum áhrifamesta atburði mannkynssögunnar. Atburði sem hefur grætt andleg sár og sjúkdóma og létt byrðar milljóna manna, karla, kvenna og barna í gegnum tíðina og mun gera um ókomin ár. Öll ókomin ár því að „…orð mín munu aldrei undir lok líða.“

Undrandi á hinum miklu yfirburðahæfileikum höfundar tónverksins kemst maður ekki hjá því að leiða hugann að viðhorfum hans til píslarsögunnar. Þykist og skynja ástríðufulla ást hans á meistaranum frá Nasaret, djúpa innlifun í kvöl hans og pínu og algleymis tjáningu þar um í tónum, lofgerð, tilbeiðslu og þakklæti.

Við sátum heilluð og gripin í fullsetinni Hallgrímskirkju í gær, hjónakornin, og hlýddum á Matteusarpassíu Bachs, Það var, í fáum orðum sagt, stórkostleg og hrífandi upplifun sem við munum eiga í minningarhólfi hugans sem helgað er hátíðum. Við þökkum innilega fyrir okkur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.