Tvíraddað stef 2

Það eru fleiri víddir í tilverunni en sú sem ég nefndi í fyrri pistli um dvölina í Litlatré. Og sannast þar hið fornkveðna að þótt menn geti ekki valið sér bræður eða systur eða foreldra, né gen til að byggja persónuleika sinn, þá geta menn -og Guði sé lof fyrir það,- valið sér vini. Þess vegna bauð ég þessum þrem að lúra á náttborðinu hjá mér, Walt Whitman, Friedrich W. Nietzsche og Bernhard Schlink.

Öllum var þeim skylt að leggja með sér af verkum sínum og urðu þessi þrjú fyrir valinu: Söngurinn um sjálfan mig, Svo mælti Zaraþústra og loks Ástarflótti. Reyndar var doktorinn í fjölskyldunni, Kristinn Ólason, svo elskulegur að koma í heimsókn og skenkja okkur öðru hefti Glímunnar. En Glíman er, eins og undirtitill hennar segir: „Óháð tímarit um Guðfræði og samfélag.“

Þær valda mér alltaf svipuðum heilbrotum sterkustu yfirlýsingarnar um hina mestu „jöfra heimsbókmenntanna“ sem svo eru nefndir. Þá velti ég því fyrir mér hvort þeir sem slíkt segja um aðra, í ræðu eða riti, hafi skoðað allar bókmenntir heimsins og borið þær saman. Hvort þeir hafi gert þá úttekt á eigin færleika að þeir geti flokkað aðra höfunda í dilka og smellt á þá gæðastimpli eins og dýralæknar gera við kjöt í sláturhúsi.

Nú las ég Sönginn um sjálfan mig þrisvar í fríinu. Hafði grautað talsvert í honum áður. Í þriðju yfirferðinni fannst mér ég byrja að finna fyrir hljómi, líkt og þegar maður hlustar á sígilda tónlist og er í vafa um hana þar til í fimmta eða sjötta sinn. Það er þegar hún verður kunnugleg og kallar á einskonar samsvörun við þá þekkingu sem maður hefur öðlast á henni. Og þá er hægt að spyrja sjálfan sig hvort yfirburðir höfundarins felist í manns eigin viðbrögðum við verkum þeirra og í framhaldi af því hvor sé jöfurinn, höfundurinn eða lesandinn.

Það má heyra einskonar lífshljóm í kafla eða versi 26 og tek ég mér bessaleyfi og birti hér brot úr kafla 32, það sem Whitman segir um dýrin þegar hann virðir þau fyrir sér seint og snemma, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar:

„Þau sveitast ekki og kvarta yfir kjörum sínum,
Þau liggja ekki andvaka í myrkrinu og gráta syndir sínar,
Þau valda mér ekki velgju með hjali um skyldur sínar við Guð,
Ekkert þeirra er óánægt, ekkert þeirra vitstola af eignafíkn,
Ekkert þeirra knékrýpur öðrum né dýrkar ævagamla forfeður,
Ekkert þeirra nýtur virðingar eða er vansælt um alla heimsbyggðina.“

og

„Þau birta mér jarteikn um sjálfan mig og færa mér óhrekjanlegar sönnur.“

Bókin endar loks á eftirfarandi línum:

„Láttu ekki hugfallast þó þú finnir mig ekki í fyrstu atrennu,
Farirðu á mis við mig á einum stað þá leitaðu bara á öðrum,
Einhversstaðar doka ég og bíð fundar við þig.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.