Hvar hjartað slær

Við hittumst í anddyri hússins í gær. Á miðjum degi. Hann er grannur og snaggaralegur, maður á mínum aldri, og sagði, eftir góðan dag, „ég keypti nýjan bíl. Var orðinn leiður á að þvo þann eldri.“ Fyrst horfði ég á manninn, þóttist greina kaldhæðni, því hann átti svo til nýjan bíl fyrir. Sömu tegundar. Loks kviknaði á perunni og ég svaraði: „Ég þekkti mann sem keypti nýja skó þegar hann sleit skóreim.“

Svo sagði hann mér frá þessum stórkostlega tölvu og tæknibúnaði sem nýi bíllinn er væddur. Búnaði sem segir frá loftþrýstingi í dekkjum, sætin haldi sér réttum í beygjum þótt bíllinn halli, og þetta og hitt og hitt og þetta. Honum var talsvert niðri fyrir. Ég hlustaði hugfanginn, hef einu sinni eignast nýjan bíl á ævinni. Verð þó sjálfur að mæla loftið í börðunum. En af því að karlar unna bílum þá var ánægjulegt að hlusta á manninn og ræða málin.

Næst barst talið að verðinu. Á þriðju milljón, Beinskiptur. Fæst ekki með sjálfskiptingu. „En hvað heldur þú,“ spurði maðurinn svo og rödd hans varð ábúðarmeiri, „það er nú alveg merkilegur andskoti þetta með verðlagninguna. Bíllinn kostar um níu hundruð þúsund út úr verksmiðju í framleiðslulandi sínu sem er í Evrópu. Svo þegar allir, sem mögulega koma græðgi sinni að málinu, eru búnir að verðleggja þátttöku sína, þá hefur verð bílsins hækkað um hundrað og fimmtíu prósent. Hundrað og fimmtíu prósent.“

„Er það virkilegt,“ sagði ég, „hundrað og fimmtíu prósent?“ „Já, það er það,“ sagði maðurinn og bætti við: „það er ljóta fjármálapólitíkin sem rekin er í þessu landi. Óskiljanleg og óeðlileg.“ Ég tók undir við manninn. Er honum sammála. Sagði að lokum: „Þú verður að gæta þess að óhreinka bílinn ekki, svo þú þurfir að kaupa annan.“ Hann hló við og hvarf inn í póstkassann sinn.

Eftir á leiddi ég hugann að þessari íslensku fjármálapólitík. Las í Mogga í morgun viðtal við Hans Engelberts. Yfirskrift viðtalsins er: „Græðgi orðin einhvers konar siðferðilegt gildi.“ Hans segir ljóst að taumlaus kapítalismi gangi ekki til lengdar. Taumlaus. Það er sá eða það sem ekki er stjórnað. Þegar því græðgi og ágirnd fá að leika lausum hala þá er í rauninni „djöfullinn laus“.

Ég stóð alltaf í þeirri meiningu, svo barnalegur sem ég er, að til þess væru stjórnvöld að hafa stjórn á hlutunum. Í þágu allra. Ekki bara fárra. Og vegna aðdáunar minnar á menntun og þekkingu áleit ég að menntun og þekking mundu stuðla að bættum hag allra, fremur en því að fáir útvaldir græði á kostnað fjöldans. Einhversstaðar í framtíðinni mun þessi gráðuga stefna missa máttinn. Þá mun fjöldinn segja, hingað og ekki lengra. En þetta er auðvitað spurning um viðhorf stjórnmálamanna. Hvar hjarta þeirra slær.
Var ekki forsetinn að blessa Baug í ensku sjónvarpi í gær?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.