Hún var sérkennileg fréttin í síðustu viku sem fjallaði um verkamanninn sem vantaði heyrnartæki. Kominn á eftirlaun óx honum í augum að borga á annað hundrað þúsund krónur fyrir heyrnartæki og ákvað að sækja um styrk til verkalýðsfélagsins síns. Það reyndist vera Efling, félag sem vaxið er upp úr verkamannafélaginu Dagsbrún og verkakvennafélaginu Framsókn.
Gamli maðurinn hafði greitt sín gjöld til félagsins alla ævi, enda félögin hörð á því að vinnuveitendur drægju þau af launum starfsmanna og stæðu skil á þeim. Gamli maðurinn sótti því um styrk til félagsins síns, minnugur allra stóru orðanna um að „sameinaðir stöndum vér“ og „stétt með stétt“ eða hvernig þau hljómuðu nú öll slagorðin sem hrópuð voru í kring um kosningar í félögunum.
En umsókn mannsins var synjað. Sjóðurinn er bara fyrir þá sem enn eru í starfi og greiða í hann. Og eru því væntanlega borgunarmenn fyrir heyrnartækjum. Fréttin af þessum viðskiptum mannsins við verkalýðsfélagið er lærdómsrík. Hún undirstrikar, eina ferðina enn, hvað réttur verkamanna er lítill og hvað umhyggja með þeim er, þegar á reynir, af skornum skammti.
Öll starfsárin þeirra leggja vinnuveitendur sig fram um að halda launum starfsmanna og réttindum í lágmarki og þegar vinnuveitendum lýkur tekur verkalýðsfélagið við. Tæpast eru eftirlaunin eitthvað sem hægt er að hrópa húrra fyrir. Það væri annars fróðlegt að vita hvað mikið umræddur verkamaður hefur greitt til félagsins síns um ævina!