Norðanáttin sem hvarf

Lurkum lamið eftir gróðursetningarhelgi hlustar fólk fullt eftirvæntingar á veðurspár og vonar að nú loksins rætist þær af alvöru: „fer að rigna undir hádegi…, rignir í dag og á morgun….“ En klárt er að regn er eitt af því sem græðlingabændur þrá hvað mest af öllu þessar vikurnar og hafa verulega samlíðan með jarðargróðri sem þroskaheftur bíður og stynur og ákallar tilveruna um vökvun.

Undanfarnar vikur hafa ekki verið gróðurvænar vegna kulda og þurrka. Meðalhiti víðast hvar verið lægri en undanfarin ár. Næturfrost og norðannæðingur einkennt tíðarfarið í uppsveitum Borgarfjarðar. Sólskin á daginn. Um liðna helgi komst hitinn á pallinum við Litlatré í 25 gráður um miðjan dag. Íbúarnir puðuðu við að gróðursetja hríslur og svitinn bogaði af þeim, rann í augu og önnur vit, eða óvit.

Undir miðnætti var bætt við vatnsslöngur og þær togaðar út og suður og fram og aftur um móa og börð til fjærstu lóðamarka, og græðlingar og nýjar hríslur vökvuð undir nóttina, skv. vísindum fræðimanna. Ótrúlegt hvað vatnsslöngur geta verið óþjálar í þýfi. Þegar svo rigning komst í veðurspár veðurvitanna var hlaupið til og tilbúnum áburði dreift yfir móa og mel eldsnemma á sunnudagsmorgni.

Hvíldardagsbrotið réttlættist með versi í Lúkasi 14, „Nú á einver yðar asna… …mun hann ekki… … þótt hvíldardagur sé?“ Margur er nú asninn, getur maður sagt, og engu gátu þrætubókarfarísearnir í samtíð frelsarans svarað um málið. Segir ritningin. Um morgunkaffi, að önnum loknum, komu bændurnir í Kalmanstungu í heimsókn, Kalman og Bryndís. Upphófst nú samræða um veðrið og kuldann, og regnið sem allir þrá.

Góðir gestir: Kalman og Bryndís ásamt Ástu, húsfreyju í Litlatré (smellið á myndina)

Þegar umræðu um veðrið lauk kom sauðburður til tals. Gekk vel. Þá var rætt um bændur sem vilja hætta búskap vegna aldurs en geta það ekki vegna þráhyggju. Eitthvað var minnst á mislinga í baki og gen sem beygðu menn í keng. Loks kom að leyndardóminum um hina þrálátu norðanátt í Hvítársíðu allt frá dögum Illuga svarta. Öldum saman blés hún norðan af heiðunum, ströng og stíf og steypti sér nístingsköld suður yfir Síðufjallið. Heyrðist nefnd oftar en aðrar veðurlýsingar í útvarpi um langt árabil. En svo hvarf hún með öllu. Á einum degi. Það var þegar veðurstöðin í Síðumúla var lögð niður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.