Það vakna ýmsar spurningar í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Sumar þeirra tengjast trúmálum. Kosið var samhliða um hvort leyfa skuli hjónabönd samkynhneigðra. Því var hafnað í ellefu ríkjum. Sitjandi forseti lagði mikla áherslu á að slík hjónabönd yrðu aldrei leyfð. Þá er hann þekktur fyrir að vera ákafur andstæðingur fóstureyðinga. Vegna Guðs, hans heilaga orðs og Móselaga, sem hann segist virða í hvívetna og hvergi vilja hvika frá.
Svo langt gekk um þessi atriði að páfinn í Róm lét boð út ganga á meðal kaþólskra Ameríkana, að þeir skyldu kjósa Bush og stefnu hans vegna trúarskoðana hans og festu í þessum málum. Vegna Guðs og Móselaga. En það er ekki einhlítt mál að ætla sér að fara að reglum Móselaga þar sem það blasir við að þótt menn ríghaldi í eina regluna og þykist menn að meiri, þá þverbrjóta þeir aðra. En þegja gjarnan þunnu hljóði um það.
Sem dæmi má benda á að þessi sami forseti og hafnar hjónaböndum samkynhneigðra af mikilli festu, að hann segir vegna Guðs og Móselaga, gengur á sama tíma þvert á lögmál Móse um að „þú skalt ekki mann deyða.“ Og hann hreykir sér af því að vera stríðsforseti og framkvæmdastjóri mikilla drápa. Það má og velta því fyrir sér hvaða viðhorf hann kysi að hafa til hinnar hörðu reglu Móse: „Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, fót fyrir fót,“ þegar að honum sjálfum kæmi.
Ætla má að menn á borð við bandaríkjaforseta telji sig hafa „umboð að ofan“ til að velja þær reglur sem þjóna þeim best í keppninni um kjósendur. Keppni sem í eðli sínu snýst fyrst og fremst um það að komast yfir sem mest völd og að ríghalda í þau. Og þegar völdin eru fengin.
Hvað kemur þá í ljós?
Æ, já. Umboð að ofan eða umboð að neðan? Það er nú meiri spurningin.