Í andvöku liðinnar nætur

Í framhaldi af litlum pistli mínum síðastliðinn laugardag, „Hýstu aldrei þinn harm“, þar sem vitnað er í hluta kvæðisins Fákar eftir Einar Benediktsson — en þess er nú minnst að 140 ár eru frá fæðingu þessa mikla skáldjöfurs — sótti að mér í andvöku liðinnar nætur hugsun um hinn mikla eilífa anda sem fer um veröldina og Prédikarinn lýsir sem hreyfingu sem aldrei stansar.

Hann ritar:

„Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik.“ Og okkur, einföldum mannanna börnum, býður í grun að tilvera mannsins sé að mestu „aumasti hégómi“, þegar við hugleiðum feril sólar, og stöðugan straum árinnar. Og þykjumst skynja að yfir og allt um kring svífur andi. Hinn mikli og eilífi andi.

Í hverri kynslóð kemur hann fram. Hann birtir sig í brjóstum þeirra sem hann sjálfur velur, til að lýsa mönnunum þegar dimman byrgir þeim sýn. Dimman, sorgin, bölið. „Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer.“ Skáldjöfrar, í gegnum aldirnar, hafa numið óm andans og ort um leyndardóma spekinnar, ljóð og orðskviði, og skilið eftir handa okkur einföldum mannanna börnum til að hugga láta.

„Hýstu aldrei þinn harm,“ sagði Einar Benediktsson. „Meðan ég þagði, tærðust bein mín,“ sagði Davíð ben Ísaí. Og mönnum er ráðlagt af hinum mesta meistara elskunnar að „fara inn í herbergi sitt, loka dyrunum og biðja andann sem er í leynum“. Því að „Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika“. „En til mín laumaðist orð, eyra mitt heyrði hvíslað … og vindgustur straukst um andlit mitt …“ sagði Job.

Í andvöku liðinnar nætur nam ég óminn af þessum löngu sögðu orðum. Orðum sem voru og eru, í hverju andlegu upphafi, sproti og stafur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.