Í kirkju með skambyssu og riffil

Stundum held ég að Biblían mín sé öðruvísi en Biblíur ýmissa annarra. Það gerist gjarnan þegar sjálfumglaðir einstaklingar tjá sig um trúarskoðanir sínar opinberlega. Tala eins og þeir hafi allan sannleikann í hendi sér. Þá tek ég ritninguna mína fram og les orðin um frelsarann. Ég á athvarf í orðum hans. Griðastað.

Las undarlega grein í einu dagblaði helgarinnar. Fjallar um forsetakosningar Bandaríkjamanna, eða „fjöldahreyfingu heittrúaðra sem tók af skarið og kaus „bróður Bush,““ eins og viðmælandi blaðamannsins sagði. Fjöldahreyfingu sem kaus að tryggja sér aðstöðu og stefnu til geta áframhaldandi lamið á hommum og lesbíum. Og áframhaldandi lamið á vanfærum konum sem ekki ráða við kringumstæður sínar. „Mikill sigur fyrir kristnina,“ sagði í greininni.

Mér varð hugsað til þess, að á meðan aðalmálið er að koma í veg fyrir hjónabönd homma og lesbía og banna fóstureyðingar, þá stendur Bush, gengi hans og fjöldahreyfing, fyrir morðum í þúsundavís. Morðum á börnum, konum og körlum, utan Bandaríkjanna. Í þúsundavís. Ár eftir ár. Þá er ekki spurt hvort konurnar eru vanfærar. Og má af því draga þá ályktun að fóstrin í þeim hafi miklu minna gildi en fóstur í amerískum konum.

Einhvern veginn hljómar þetta í huga mínum eins og hræsni. Hræsni,ofstæki og valdafíkn. Reglurnar og skilgreiningar á þeim eru sótt langt, langt aftur í kolsvarta forneskju. Jafnvel lengra en til tíma Hammurabis.

Þetta er alt svo ólíkt Jesú frá Nasaret. Hann kom inn í veröldina með mýkt og mildi. Mýkt, mildi og anda sem táknuð voru með dúfu. Undursamlegan tón umhyggju, meðlíðunar og elsku. Og lagði sig fram um að létta þjáningar manna. Hann barði ekki á þeim veikburða. Hann blés í þá nýju lífi. Gaf sál sína inn í brjóst þeirra.

Þegar spámenn reyndu að undirbúa veröldina undir ný viðhorf: „Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn,“ og „Miskunnsemi þrái ég en ekki fórn,“ þá drápu valdsmennirnir þá, hinir „rétttrúuðu“. Og þegar „náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesúm Krist,“ þá létu hinir „rétttrúuðu“ drepa hann einnig.

Ég á þess vegna í erfiðleikum með að skilja af hverju endurkjör „bróður Bush“ er svona mikilvægt fyrir kristnina um víða veröld.. Mér finnst kjör hans hafa miklu meira gildi fyrir Lögmál Móse. Og það læðist að mér sú hugsun að þeir sem dýrka hann og lögmál hans af slíku afli eigi í svipuðum vanda og Nikódemus nóttina góðu.

Einkar fróðleg niðurstaða kannanna um kjósendur Bush og lífsviðhorf þeirra, sýnir að langstærsti hluti þeirra fer í kirkju í viku hverri og á skammbyssu og eða riffil. Það væri forvitnilegt að fræðast um hvaða orð þeir lesa í kirkjunum sínum. Varla eru þau frá Jesaja 61:1.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.