Í húsi föður míns

Það rifjast stundum upp fyrir mér atvik sem átti sér stað í Þríbúðum á tímum okkar Ástu þar. Ung hjón komu í sunnudagssamkomu. En á þeim árum voru ætíð tvær almennar samkomur í viku. Á fimmtudagskvöldum og á sunnudögum klukkan fjögur. Samkomur þessar voru að jafnaði vel sóttar. Ungu hjónin sátu aftarlega og eftir samkomuna fengu þau sér kaffisopa ásamt öðrum samkomugestum.

Konan gaf sig á tal við mig og spurði hvort allar samkomur okkar væru svona sorglegar. Hvort ekki væri nein gleði og stuð. Spurningin kom mér í opna skjöldu og ég horfði forviða á konuna. „Finnst þér að það eigi að vera gleði og stuð?” spurði ég hana. Hún svaraði: „Við höfum verið í Bandaríkjunum um árabil og sóttum samkomur þar og það var alltaf gleði og stuð.” Ég horfði á konuna, leit síðan á manninn hennar. Þetta var fólk um þrítugt.

Þau voru vel á sig komin. Myndarlegt fólk og börnin þeirra með þeim. Greinilegt var að konan hafði ákveðna skoðun á því hvernig guðsþjónusta ætti að vera. Í gegnum huga minn fóru ritningarorð á hraðbergi. Orð sem höfðu mótað trúarviðhorf mín. Grátstafir, harmur og hróp: „Og Guð heyrði andvarpanir þeirra og minntist sáttmála síns… …og birtist þeim.” Ennfremur: „Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi, en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi.”

Ótal orð af þessum toga. Myndin af bersyndugu konunni í Lúkasi sjö varð ljóslifandi. Hún „…nam staðar að baki honum (Jesú) til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum.” „…af því að hún elskaði mikið,” svaraði Kristur faríseunum.

Á leiðinni út lagði ég aðra höndina á öxl ungu konunnar. „Við hugsum þetta öðru vísi hér í Samhjálp,” sagði ég. Bætti svo við: „Hafið þið komið í Fíladelfíukirkjuna?” „Nei, svaraði konan.” „Þið ættuð að fara þangað. Kannski finnið þið þar það sem þið leitið að.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.