Eldri borgarar

Þau komu inn eftir löngum ganginum í Læknasetrinu. Erfitt að giska á aldur þeirra. Þó sennilega ekki yngri en sjötíu og fimm til áttatíu ára. Karlinn gekk hraðar. Hann var svolítið skakkur við stefnuna sem hann gekk í. Konan kom um tíu metrum á eftir. Göngulag hennar minnti á verki í augnkörlum. Hún hallaði dálítið fram. Var klædd í græna, þunna, hálfsíða kápu. Karlinn tók stól sem var við hliðina á mér og færði hann fjær um eina stólbreidd. Og settist.

Þegar konan náði til karlsins sótti hann annan stól og staðsetti fjarmegin við þann sem hann hafði setið í. „Sestu góða mín,” sagði hann. „Já, já,” sagði konan, „ekkert liggur á.” Þegar hún var sest tók karlinn að tala við hana af ákafa. Hún tók undir við hann. Þau ræddu erindi dagsins nokkurn veginn fullum hálsi og svo þessa jarðarför. Karlinn var ekki ánægður með tímann. „Svo þurfa þeir endilega að jarða hann á föstudaginn, einmitt daginn sem við ætluðum út að borða,” sagði hann í kvörtunartóni.

„Það er ekkert við því að gera,” sagði konan, „við fáum okkur bara lítið í erfidrykkjunni og förum svo út að borða.” „Það er kannski í lagi,” sagði karlinn, „mér finnst samt að maður borði alltaf of mikið í þessum erfidrykkjum.” „Þú getur nú reynt að stjórna því,” sagði konan í glettnilausum tóni. Eftir smáhlé á samræðunum ræddu þau um Einar. Þau lækkuðu raddirnar og hölluðu sér nær hvert öðru.

Konan sagði: „Hann ætlar að koma um helgina og borða með okkur. Svo ætlar hann með okkur í bíltúr um borgina.” Það gætti tilhlökkunar í rödd hennar. Hún hallaði sér nær karlinum. „Mér finnst alltaf svo gaman þegar hann kemur. Manstu síðast þegar hann kom? Þá var nú skemmtilegt.” Karlinn hlustaði á konuna án þess að svara nokkru. Hún hélt áfram dágóða stund. Loks kom þögn. Þá sagði karlinn: „En hann er dáinn.”
„Ég veit það,” sagði konan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.