Og tími til að kætast

Steina frænka mín sagði gjarnan: „amman er þarfasti þjóninn.” Steina frænka. Ég hef alltaf dáðst að henni. Hún hefur á einhvern undraverðan hátt haldið glaðværð og góðu skapi í gegn um lífið. Vissulega skil ég að hún hefur fengið gen frá mömmu sinni og mamman frá sinni mömmu, en sú var amma okkar Steinu og hló að flestu sem fyrir bar eftir nírætt. En þegar Steina talar um þarfasta þjóninn þá á hún við hvað dætrum hennar þykir gott að láta hana gæta barna þeirra.

Þetta kom upp í huga minn í morgun. Þá átti ég erindi á Laugaveginn. Í verslun til að kaupa lítilræði handa Ástu minni. Klukkan var tíu og mikið af útlendingum á ferli. Kös fyrir utan Mál og menningu. Sumir að rýna í landakort, aðrir í póstkort eða blöðin á útistandinum. Erindi mitt var í Liverpool. Afgreiðslustúlkan þar var að gera upp á sér andlitið í stórum spegli sem er á einum veggnum. Svo hringdi símann. Stúlkan svaraði: „Já, mamma mín, já, auðvitað, já, gerðu það bara. Ok. Bæ.”

Svo hélt hún áfram að pakka inn því sem ég hafði keypt. Hún er ung og fríð og hefur fallegar hendur. Ég nefndi hendurnar við hana. Síminn hringdi aftur. „Afsakaðu,” sagði stúlkan, „þetta er mamma, hún er að fara með barnið mitt í leikskólann og þarf að spyrja um svo margt.” „Allt í lagi sagði ég,” enda leið mér forkunnar vel og hafði nægan tíma. Svo lauk samtali þeirra mæðgna. „Afsakaðu,” sagði stúlkan aftur, þetta var mamma. Þá sagði ég henni frá spakmæli Steinu frænku. „Frænka mín segir gjarnan að amman sé þarfasti þjóninn.” Stúlkan velti setningunni fyrir sér. Sagði síðan: „Já, þetta með börnin, amman og börnin. Auðvitað eru þær ómissandi. Þetta væri ekki hægt án þeirra.” Svo kvöddumst við.

Ungur pabbi ók barnakerru á gangstéttinni handan götunnar. Þegar ég kom að hlið hans varð mér á að segja, og ætlaði auðvitað að vera fyndinn: „Hefur þú próf á þetta faratæki, ungi maður?” „Það er alveg að koma,” svaraði hann og tók mér vel. „Þegar ég var ungur,” bætti ég við, „þá sást aldrei ungur pabbi aka barnavagni eða kerru. Og ef maður lenti í því þá fór maður hjá sér ef kunningi mætti manni.” „Nú verður maður að gera þetta þrjá mánuði,” sagði ungi pabbinn, og kveinkaði sér hvergi. „Njóttu þess af hjarta, kæri,” sagði ég og jók hraðann.

Næst á listanum var Hagkaup í Skeifunni. Ég spurði í snyrtideildinni hvort þeir seldu hádegisfegrunaraðgerð. Engin svör. Ég hélt áfram og tíndi í körfuna eitt og annað á grill. Og sönglaði inni í mér. Skoðaði alltof feitu konuna með innkaupseðilinn og tággranna eiginmanninn hennar sem ók innkaupakröfunni á eftir henni. Og hugsaði með mér; Það sem vekur gleði við að sjá allt of digurt fólk er að manni finnst maður vera tiltölulega grannur sjálfur.

Við Ásta ætlum í sveitina eftir vinnu. Smíða palla og hlynna að blómum. Er nokkur furða þótt maður kætist?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.