Saga sturlunar

Eftir að hafa fylgst með sjónvarpi á mánudagskvöldinu, allt frá fréttum og Kastljósi til enda eldhúsdagsumræðnanna (svissað stöku sinum á ritstjórana í Íslandi í dag) kom upp í hugann heiti bókarkafla nokkurs, Saga sturlunar, sem er að finna í þeirri ágætu bók Útisetri. Ekki er með auðveldu móti hægt að skilgreina tal og framkomu stjórnarandstöðunnar í umræðunum öðruvísi en að í hugann komi grunur um jafnvægisröskun og sjúklegt hatur. Óheilbrigði sem ekki ættu að sjást á hinu háa Alþingi.

Það er býsna lærdómsríkt að sjá fulltrúa stjórnmálaflokkanna, líklega 16 manns, koma fram fyrir alþjóð í sjónvarpi og sýna hvað í þeim býr. Sýna hvaða háleitu hugsanir þeir hafa mótað og hvaða markmið þeir hafa sett sér til að bæta tilveru þjóðarinnar. Vonbrigðin með stjórnarandstöðuna voru mikil. Þau hófust strax með fyrstu ræðunni sem einkenndist af fyrirlitningu og ósvífni. Það gerðu og ræður alltof margra. Einkenndust af skítkasti. Ekki skil ég af hverju margir alþingismenn álíta að þjóðin hafi mestan áhuga á skít.

Öllum er ljóst að fjölmiðlafrumvarpið hefur borið hæst mála á undanförnum vikum. Hefur umræðan um það verið bæði heiftúðug og rætin. Þá hefur og verið lærdómsríkt að fylgjast með viðbrögðum fulltrúa Norðurljósasamsteypunnar. Þar á bæjum hafa menn farið mikinn og ekki sést fyrir. Eggert Skúlason, fyrrverandi sjónvarpsmaður, benti á í Kastljósi að það kæmi nýr dagur eftir fjölmiðlafrumvarpsumræðuna og þá væri ekki séð að Norðurljósamenn nytu sama trausts og áður.

Hérna niður á jafnsléttunni sýnist manni Eggert hafi rétt fyrir sér. Menn munu ekki njóta sama trausts og áður í huga okkar. Það er einhvern veginn eins og þeir hafi fallið á prófi. Prófi sem þeir hafa haft fyrir atvinnu að krefja aðra um að standast. Væntanlega reynir RÚV að sneiða hjá gryfjunum. Við berum talsvert traust til þeirra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.