Karlakór St. Basil dómkirkjunnar í Moskvu hélt tónleika í Hallgrímskirkju í gær fyrir troðfullu húsi. Áhugi á söng þeirra var greinilega mikill því þegar klukkan hálf fimm var kirkjan næstum fullsetin. Þeir sem komu eftir það máttu sætta sig við að dúsa á bak við súlur þar sem hljómurinn skilar sér engan veginn nógu vel. En hvað sem því líður þá var þetta stórkostlegur konsert.
Söngvararnir voru fjórtán, að meðtöldum undurfögrum drengjasópran sem söng einsöng í tveim lögum. Kórinn hóf dagskrána með sálmum rétttrúnaðarkirkjunnar. Þótt maður botnaði ekki neitt í textunum þá tók sálin aukaviðbragð af gleði þegar alþjóða lofgerðarhrópið hallelúja, (dýrð sé Guði), heyrðist. Kórinn hóf dagskrána með bænum, sem í dagskrá er kynnt sem Hin almenna bæn safnaðarins og gamalli rússneskri bæn, tileinkaðri Guðsmóðurinni.
Þá sungu þeir hvern sálminn á fætur öðrum og stigu kórfélagar fram til skiptis og sungu einsöng í mörgum laganna. Raddir þeirra spanna óvenju víðfeðmt tónsvið, „allt frá ofurdimmum flauelsmjúkum bössum, til hárra silkibryddaðra tenóra. Saman fléttast raddirnar í hvelfdum hljómi sem fyllir salinn.“ (Tilvitnun: Dagskrá Listahátíðar).
Seinni hluti tónleikanna samanstóð af rússneskum þjóðlögum, lögum sem maður kannast við og þekkir sbr. Söngur ferjumannsins á Volgu, Vetrarstormurinn geystist um göturnar, Hestabjallan og fleiri. Var stórkostlegt að heyra samhljóminn svo og fallegar raddir einsöngvaranna. Við gengum þakklát út í vorið og á bílastæðinu, niður undir Barónsstíg, heyrðist eldri karlmaður hrópa út um gluggann á bíl sínum til kunningja síns: „Nú vitum við hvernig annar bassi á að hljóma.“ „Já, heldur betur,“ svaraði hinn, glaður í bragði.