Forsælan og silfrið

Það voru svo fallegir dagar í vikunni. Heiðskír himinn, sólin skær og björt. Og logn. Stillilogn. Hitastig lítið undir frostmarki. Orðsnilld Tómasar kom upp í hugann. Fagra veröld. Og Satchmos gamla. Wonderful World. Ók niður að höfn. Lagði bílnum við verbúðarbryggjurnar sem svo hétu. Horfði á litadýrð fiskibáta og skipa. Minntist löngu liðinna daga. Þá fórum við bræðurnir stundum þarna niður eftir til að horfa á ysinn og þysinn. Og veiða. Nú var allt kyrrt þarna.

Við veiddum á bryggjunum, þyrskling, kola og massadona. Ég veit ekki af hverju við kölluðum hann massadona en fullu nafni hét hann marhnútur. Í þá daga voru bátar að fara frá og aðrir að koma að. Fiskibátar sem sögðu tugg, tugg, tugg, og sendu reykhringi upp í loftið úr strompunum. Bátsverjar voru hressir og tóku að landa með aðferðum sem fáir mundu nenna að viðhafa í dag. Og þeir áttu það til að kalla til okkar: „Eruði að fáann strákar?” Það var svo uppörvandi.

Við höfnina

Eftir því sem við stækkuðum tóku þeir meira eftir okkur og stundum ræddu þeir málin. Eins og við værum alvöru menn. Þá fann maður fyrir undarlegri gleði inni í sálinni. Og þeir báðu mann að losa springinn eða taka á móti honum og krækja á pollana. Eftir fyrstu skiptin var maður talsvert upp með sér yfir því að fá að taka þátt. Á flóði hurfu hálfu bryggjurnar. Nú eru þarna flotbryggjur. Læstar. Og öll óviðkomandi umferð bönnuð.

Tveir menn komu gangandi við endann á verbúðunum. Þeir voru klæddir í vinnuföt. Í ljúfum tilfinningum endurminninganna ávarpaði ég þá eins og maður gerði í gamla daga. Sagði: „Það er blítt í dag.” Þeir héldu áfram göngunni án þess að hægja ferðina. Þegar þeir voru komnir spöl fram hjá mér sagði annar „Hér er alltaf blítt.” Og þeir hurfu fyrir hornið.

Sólin og birtan

Ég rifjaði upp andlit og útlit nokkurra sjóara frá fyrri tíð. Sumum kynntist ég síðar. Þeir voru ein tegund af hetjum í huga mínum. Þegar ég fékk að ganga með þeim upp í verkamannaskýli, -veistu hvar Verkamannskýlið var á þessum árum?- þá fannst mér ég vera í hópi hetja. En í einkalífi margra þeirra var sorg og sút. Fátt sem minnti á hetjur.

Sumir gáfu okkur fisk í soðið. Þá komum við hróðugir heim til mömmu, þótt við vissum að það þýddi fisk í allan mat á meðan hann entist. Þetta var fyrir daga ísskápanna. Margt hefur breyst síðan þá. Aðstaða manna, afkoma manna, hetjumynd manna. En sálarlíf, sorg og sút er eins í laginu og þá. Og það svíður undan þeim á sama hátt og þá. En sólin er hin sama. Hún rennur upp og gengur undir. Og hafið er hið sama. Á flóði og fjöru. Eins og Guð í himninum er sá sami. „…en Spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.