Við mættum á fyrirlestur í Hallgrímskirkju í morgun klukkan tíu. Við Ásta. Það er dagur Biblíunnar. Ritningin hefur haft svo mikla þýðingu í lífi okkar í fjörutíu ár. Blessuð bókin. Það var samt nokkuð merkilegt hvernig hún vakti mig fyrst. Það var með orði úr prédikaranum: „Allt er hégómi. Aumasti hégómi. Og eftirsókn eftir vindi.” Og þannig hafði skoðun mín verið og nú fannst mér vit í Biblíunni og hún verð lesningar.
Og við tókum að lesa ritninguna nokkru síðar og orð hennar að hafa áhrif. Um áhrif orða má sjá í fyrirsögn í Mogganum í morgun: „Maðurinn er það sem hann les.” Ég kenndi þetta í Samhjálparstarfinu í 22 ár. Sagði gjarnan við skjólstæðingana, „þið getið lesið ykkur heilbrigð.” Með því að fylla hugann af læknandi orðum. Orði. Sumum tókst það. Það er nefnilega mikill máttur í orðum. Doktor Sigurjón Árni Eyjólfsson var með fyrirlesturinn í morgun. Samantekt hans í lokin um efni erindisins fjallaði einmitt um mátt Orðsins „sem opnar hugann þegar talað er.”
Í messunni klukkan ellefu prédikaði séra Sigurður Pálsson. Hann tók upp sömu fyrirsögn úr Mogganum og ég nefndi hér fyrir ofan og lagði nokkuð út af upphafi greinarinnar, þar sem segir: „Sýndu mér bækurnar sem þú lest og ég skal segja þér hver þú ert.” Þetta vita að sjálfsögðu margir, hvaða bækur sem þeir svo lesa. Já. Það er dagur Biblíunnar. Margir eiga henni líf að launa. Hún er blessuð bók.