Svo eitthvað sé nefnt

Maður finnur fyrir vori. Þetta er þannig dagur. Sunnan þeyr, framan af degi að minnsta kosti, og súld. Fór út í vorið með það eitt í huga. Þegar erindum var lokið gat ég ekki hugsað mér að fara inn í hús strax. Vesenaðist í miðbænum um stund. Þar var talsverð umferð. Gangandi fólk og skelli hlægjandi skólakrakkar. Og svo auðvitað bíl við bíl niður Laugveg og vestur Austurstræti

Ákvað nú að fara í Grófarhús. Langaði að sjá ljósmyndasýninguna hans Leifs. Hef ekki fyrr komið í húsið. Hún er uppi á 6. hæð. „Þú getur gengið upp stigann eða tekið lyftu,” sagði ungur maður í upplýsingabás. Það var engin í salnum þegar ég kom inn. Jú, rangt, par sem talaði ensku sat í einu horninu. Hann tók myndir af henni. Ég gekk með myndunum. Þarna var Sigfús Daðason með vindil, við annan mann.

Óli blaðasali á fullu, mér fannst ég heyra hann kalla: „Morgunblaðið, Alþýðublaðið og Tíminn,” með sínu lagi. Þá var þarna Regn og stormur við Dómkirkjuna, svo eitthvað sé nefnt, Kvennadagurinn 1975, þá Uppsalakjallarinn, beint á móti Herkastalanum. Við komum þar oft bræðurnir á leiðinni suður á Holt. Tvær eða þrjár tröppur niður. Keyptum kók og Astorías. Stundum var blandað þarna. Svo eitthvað sé nefnt. Klárasta tilfinningin á sýningunni er í mynd sem heitir Norðannepjan í Skuggahverfi ´63.

Ég ákvað nú að skoða bókasafnið á fyrstu hæð. Þar er allt svo fallegt og fínt. Menn að lesa dagblöð, aðrir að borða bita úr sjálfsala. Þá var fólk að koma með bækur og fara með bækur. Einn var að skila bunka af geisladiskum. Á leiðinni út staldraði ég við rekka með nýjum útlendum sýnisbókum. Sá þar Percival Keene eftir Marryat. Þá rifjaðist upp fyrir mér u.þ.b. sextíu ára gamalt atvik.

Við pabbi minn vorum að fara niður í bæ. Gengum norður Suðurgötuna. Þegar við komum að Hringbraut, það var ekki komið hringtorg þar þá, kom ég auga á umslag, A4, sem lá þarna við götubrún. Ég sleppti hendinni á pabba og sótti umslagið. Hann stoppaði og skoðaði innihaldið. Það voru tvær eða þrjár vélritaðar síður merktar mætum manni og efst stóð Útvarpserindi.

Pokinn góði

Pabbi hafði snör handtök og þótt ég muni ekki alla atburðarásina, þá kom hann umslaginu til skila niður í Landsímahús, þar sem útvarpið var þá, sem var eins gott því að maðurinn átti að flytja erindið í útvarpið klukkutíma síðar. Þrem vikum seinna fékk ég í pósti eintak af bókinni Percival Keene, á dönsku, og einhver þakkarorð með. Ég endaði þessa heimsókn í Grófarhús með því að kaupa mér taupoka á fimm hundruð kall. Svona svo eitthvað sé nefnt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.