Ísland í NATO og herinn „kjurt”.

Við upplifðum það strákarnir á Grímsstaðaholtinu á stríðsárunum að Kaninn var góður nágranni. Holtið, eins og við heimamenn kölluðum það, bjó við þau kjör að hermannakampar umluktu svæðið á allar hliðar. Samneyti var því óhjákvæmilegt, bæði við Breta og Kana. Leiðinleg atvik gerðust fremur með Bretunum. En það er allt önnur saga.

Margir okkar hafa verið dús við Kanana allar götur síðan. Þótt betra að hafa þá. Hagsmunir af nærveru þeirra hafa í mörgu tilliti verið til góðs. Atvinnan sem skapaðist af umfangi þeirra brauðfæddi fjöldann allan af fólki. En á Íslandi hefur alltaf verið fullt af fólki sem naumast átti ofan í sig og á. Þannig er það enn. Mörg heimili á Holtinu áttu fullt í fangi með að eiga ofan í sig og á. Þekkja því vel skort og vöntun af eigin raun og gleyma honum ekki svo glatt.

Þetta kemur upp í hugann þegar heyrist af mótmælafólki. En það virðist vera til fólk sem mótmælir öllu sem hægt er að mótmæla, eingöngu til þess að mótmæla. Hvötina sem þar býr að baki þyrfti heimspekin að rannsaka nánar. Til dæmis minntu Keflavíkurgöngurnar sálugu meira á trúarathöfn en afurð hugsunar og skilnings. Fólk áði í kanatjöldum og drakk Kók!

Það er ekki margt eins og það sýnist vera. Minnist verkfalls hjá Iðju, félagi iðnverkamanna, fyrir fjörutíu árum eða svo. Öflugur fulltrúi verkfallsnefndar, sem jafnframt var trúnaðarmaður í verksmiðju sem taldi um fimmtíu starfsmenn, hvatti starfsfólk ákaft til að standa fast á sínu, taka þátt í verkfallsvörslu og veita hvergi undanþágu. Sjálfur vann hann í verksmiðjunni alla daga verkfallsins og hafði sín laun.
Hinir ekki.

Fólk mótmælir byggingu húsa, saman ber Ráðhúss og Seðlabanka. Og það mótmælir virkjunum þótt fleiri hundruð fjölskyldur muni koma fótunum undir sig með launum fyrir atvinnu þar. Og fólk mótmælir skerðingu á frelsi til að mótmæla. Hugsar um það í marga daga og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé nauðsynlegt að mótmæla því að mega ekki mótmæla hvar og hvenær sem er. Burt séð frá ávinningnum.

Það er að sjálfsögðu mín skoðun sem hér kemur fram. Ég kokgleypi ekki skoðanir mótmælendanna. Tel að það sem helst skorti á í þessari þjóð, sem ég er svo þakklátur fyrir að heyra til, sé agi. Hef hér eftir orð Páls Skúlasonar, heimspekings: „Ég held að það sé ámælisvert að virða skoðanir annarra, ef maður veit að þær eru ekki réttar….” Siðfræði, bls 11.

„Þó má vera, að mér missýnist og að ekki sé annað en lítið eitt af kopar og gleri þar sem ég þykist sjá gull og gimsteina.” (Descartes. Orðræða um aðferð. Bls. 63.)

Eitt andsvar við „Ísland í NATO og herinn „kjurt”.“

  1. Fín grein, ‘Island verður í NATO og herinn verður kjurt í Grindavík þar sem ég vann í 6 ár við loftnetaviðgerðir.Nú er bara að sæta lagi og versla með stöðina þar hvað er t.d. hægt að fá í staðinn?
    Hvernig væri að fá svona tvo U.S.kafbáta þar sem mikið er af sjóraræningjum í íslenskri lögsögu.
    Með beztu kveðju Hjalti Gústavsson.
    Keflavik

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.