Hann var svo einstaklega ljúfur morguninn. Umferðin háttvís á níunda tímanum. Reykjavíkurtjörn spegilslétt eins og rjómi. Græni liturinn í laufi trjáa djúpur og fullur af lífi. Úrkoma á mörkum súldar og regns. Mikið getur regn, í logni og heitu lofti, verið yndislegt. Og mikilvægi vatnsins auglýsir sig við hvert fótmál manns á mótum malbiks og gróðurs.
„Allt er vatn,” sagði Þales og með honum hófst heimspekin. „Þú veður ekki tvisvar í sömu ánni,” sagði Herakleitos, „því það er alltaf nýtt vatn í farveginum.” Og þegar ég spurði verkfræðinginn, um árið, við ókum á milli Þórisóss og Vatnsfells hvar unnið var við stíflugerðir og ríkjandi landslag er sandauðnir og eyðimörk, hvað kæmi í huga hans þegar við ókum yfir læk þar sem gróðurvottur barðist fyrir lífi sínu, svaraði maðurinn: „Fimm hundruð sekúndulítrar.”
Ósköp fannst mér verkfræðingurinn fátækur. Hverju ætli hann hefði svarað í morgun, hefði hann verið á göngunni með mér umhverfis Reykjavíkurtjörn og ég spurt hann um spegilslétt vatnið og álftirnar og annað fuglalíf? Eftir nokkra umhugsun datt mér helst í hug að hann mundi segja: „Það syngur fátt í Sollu núna.”
Ég lauk göngunni umhverfis Tjörnina. „Horfði af brúnni” yfir svæðið. Sjaldan hefur Tjarnargatan verið eins falleg. Rifjaði upp eitt og annað frá fyrri árum. Íshús, slökkvistöð, Ólaf Thors. Úti í vatninu. Álftirnar hjöluðu hver við aðra. Kona gaf öndum brauð.
Hvað um það. Nálin á loftvoginni minni hefur hækkað um þrettán millibör frá því í gær. Sýnir núna þúsund og þrettán sem er meðalloftþyngd. Hækkandi loftvog lofar góðu. Tilvalið að fara í ferð á morgun. Með nesti og nýjan prímus. Hver veit? Guð gefur vorregnið.