Heitir þú Bíbí?

Við komum inn í gróðurstöðina Borg í Hveragerði. Spjölluðum við starfsmann um plöntur. Maðurinn var sérlega þægilegur og talaði við okkur eins og við spyrðum af viti. Ásta spurði um stjúpur. Hvað þyrfti margar og hvað verðið væri. Það var þá sem ég kom auga á konuna. Hún var að skoða sig um. Tveir karlmenn fylgdu henni. Og hundur. Hann var í bandi. Karlarnir gátu hafa verið maki og sonur.

Ég var viss um að ég þekkti konuna. Frá unglingsárum. Mundi ekki hvaðan. Þráhyggjan sótti á. Konan var fremur hávaxin. Líklega tveim, þrem eða fjórum árum eldri en ég. Reyndi að rifja upp hver hún er. Starði á hana eins og asni. Hún leit stundum til mín. Þá leit ég undan. Vildi ekki að hún sæi hvað ég starði. Hún gekk um gróðurhúsin. Hundurinn fylgdi henni. Hann var glaðlegur.

Við Ásta fylgdum starfsmanninum inn í næsta gróðurhús. Þar voru stjúpur í stórum bökkum. Ásta spurði um þetta og hitt varðandi stjúpurnar. Hún hefur alltaf verið svo dugleg með blóm. Prýtt heimili okkar og sinnt blómunum eins og manneskjum. Gefið þeim að drekka og spjallað við þau, já, og klippt þau og skipt á þeim.

Einu sinni átti ég blóm. Það var rós. Hún var kennd við Hawai. Ég eignaði mér hana með yfirgangi. Þótti ósanngjarnt að öll blómin töluðu við Ástu. Ég talaði oft við rósina. Hrósaði henni fyrir fegurð og dugnað. Stundum skrökvaði ég að henni. Það var yfirleitt saklaust. Rósin dó þegar ég fór til Grænlands til að vinna. Það var 1969. Mér þótti vænt um að hún dó. Þá gat ég hugsað mér að hún hefði saknað mín.

En nú var konan farin að kalla á hundinn sinn og karlana og sagði að þau skyldu koma sér af stað. Hún gekk framhjá mér á milli beða. Ég leit á hana og spurningin hrökk út úr mér: „Ertu Bíbí?” Hún horfði á mig smástund og svaraði: „Nei,” og bætti við „ég er Maddý.” „Og vannstu á Tjarnarbarnum?” „Já.” „Fyrir fjörutíu árum eða svo?” „Já, eða fimmtíu.” „Ég man vel eftir þér. Þú varst glæsileg ung kona og við sátum þarna stundum bræðurnir og horfðum á þig afgreiða og spjölluðum við þig og þú varst alltaf svo almennileg við okkur. Þó við værum oftast blankir.” Nú hló konan og við ræddum lítils háttar og það var vinsemd á milli okkar. Við kvöddumst með handabandi.

Við Ásta keyptum stjúpur og heldum ferðinni áfram. Markmiðið var að setja þær á leiði ástvina okkar. Þau hvíla nú hlið við hlið í garðinum við Stórólfshvolskirkju, mamma mín og seinni maki hennar. Margt fer í gegnum hugann þegar stansað er við leiði nákominna. Hvað lífið er „undarlegt ferðalag” og hvað maður hefur lítið vit á flestu og hvað það var margt sem maður átti ósagt en vildi hafa sagt. Um góðu hlutina. Og svo einn daginn er fólkið farið. Ekkert hægt að segja. Og maður muldrar yfir moldunum. Iðrast. En sagan er líkleg til að endurtaka sig. Og klaufaskapurinn. En þau hvíla í friði. Hlið við hlið.

Hlið við hlið

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.