Þrjú saman

Einn af þessum dögum fór í að endurpæla í Pælingum Páls Skúlasonar. Kaflinn, „Áhrifamáttur kristninnar” varð mér svo hugleikinn. Ekki síst á þessum helgu dögum trúarársins sem ætíð hafa lyft okkur Ástu dálítið upp fyrir hversdagsleikann. Og þótt við eyddum hluta úr degi til að endurskipuleggja geymsluna í kjallaranum (en það hafði verið á dagskrá frá því að við fluttum, fyrir 11 mánuðum) þá breytti það engu um ánægjuna af textum og anda daganna.

Andi daganna felst hjá okkur í ritningartextum þeirra. Það er að segja ef menn hafa trú á textunum og möguleikum þeirra til að virka. Fyrir mitt leyti þá er ég svo heppinn að trúin sem óx upp af textunum í vitund minni hafði svo mikil áhrif á viðhorf mín til Krists að ég hef leyft mér að fullyrða, við alla sem gefið hafa mér færi á að tala um trúmál við sig, að Kristi og orðum hans sé óhætt að treysta og byggja á þeim.

Páll Skúlason pælir í þessum málum og segir: „…sá sem ekki hefur orðið fyrir þeirri reynslu að finna Guð í Jesú Kristi skilur ekki og getur ekki skilið hvað kristin trú er – ekki fremur en maður, sem aldrei hefur verið ástfanginn skilur, eða getur skilið hvað ást er.” ( Pælingar, bls. 234). Svo bætir hann við: „Nú er það eitt að verða fyrir mikilli reynslu og annað að skilja hana.”

Þarna finnst mér eins og það vanti að minnsta kosti einn kubb í púsluspilið. Samlíkingin við ástina undirstrikar það. Því svo gegnumgripnir af ást geta menn orðið, svo sviptir öllu jafnvægi og sjálfstjórn að þeir steinhætta að þekkja sjálfa sig og viðbrögð sín. Framkoma þeirra breytist, áhugamál þeirra einnig og allt í lífinu missir lit nema sú eina persóna sem ástin beinist að. Og ekki verður svo auðveldlega skilið hvaðan sú ást kemur, né hverrar ættar hún er, sem gerist lífsförunautur tveggja persóna og fylgir þeim í gegnum þykkt og þunnt.

Við Ásta fórum því þrjú saman í Hallgrímskirkju í gærmorgun. Þar var auglýst hátíðarmessa í tónum og tali. Andrúmsloftið var mótað af háttvísi og virðingu. Sálmar á vönduðu máli, prédikun í hógværðar og auðmýktaranda. Flutningur á Kantötu Bach´s, BWV 172, Klingið þér strengir. Frábærir söngvarar. Frábær túlkun. Ást og virðing fyrir texta og tónum. „Auf, auf, bereite dich, Der Tröster nahet sich.” Sem útleggst: Upp, upp, ver velkomin, huggarinn nálgast senn.

„Og megi Guð gefa að við gleymum því heldur aldrei að viska er óhugsandi án ástar, að ástin ber viskuna uppi, stýrir henni á vit almættisins sem birtist í mynd okkar minnsta bróður eða systur. Í ævintýri ástarinnar eru sjálfsvitund mannsins, siðferði og viska í húfi.”(Páll Skúlason. Pælingar. Bls.391.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.