Óratóría II – Talíta kúmí

Fyrir þrem árum var stofnuð lítil nefnd á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík. Viðfangsefni hennar var að koma með tillögur til úrlausnar á vanda útigangsmanna í borginni. Fyrir nefndinni fór ung kona, félagsráðgjafi, í borgarhlutaskrifstofunni í Mjódd. Sendi hún öðrum nefndarmönnum tölvupóst þar sem hún boðaði til fundar á skrifstofu sinni.

Stúlkunni, sem ég hafði aldrei séð, svaraði ég um hæl og ávarpaði hana með þessum orðum. ,,Sæl vertu Talíta kúmí, sem þýðir stúlka litla,” og staðfesti síðan fundartíma og mætingu. Varla var tölvan búin að senda bréfið þegar svar barst frá ungu konunni, félagsráðgjafanum, þar sem sagði: „Ég er alls ekki lítil,….” Mér þótti ábendingin skondin og taldi mér skylt að útskýra fyrir henni hvað um væri að ræða.

Skýringuna er að finna í frásögu af Kristi Jesú. Hann hafði verið úti á meðal fólksins og læknað marga. Samkomustjóri nokkur hafði beðið hann um að koma með sér heim og lækna dóttur sína sem var að dauða komin. En á meðan þeir voru á leiðinni dó stúlkan og allt var í uppnámi, grátur mikill og kveinan. Þegar Jesús kom þangað, sagði hann: „„Barnið er ekki dáið. Það sefur.” En þeir hlógu að honum.””

Kristur fór inn þangað sem stúlkan lá og tók í hönd hennar og sagði: „Talíta kúmí!” Það þýðir: „Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!” (Mk.5.) Orðin tvö urðu hluti af hversdagslegu tali okkar í fjölskyldunni. Talíta kúmí, og notuðum við það gjarnan í stað „Stúlka litla.” Það var glettni og glaðværð í orðunum hjá okkur sem byggðu á góðum tíðindum.

Nú hugsa ég stundum: Hvað ætli Hume hefði sagt um hrifningu mína? Eða þá Nietzsche? Hef stundum velt því fyrir mér og skilst að ef ég vil vera eigin gæfu smiður þá verði ég að velja og hafna hvað vistað verður á „harða diskinn” í smávöxnum heila mínum. Sýnist að elska Guðs, hvatningin og vonin sem hann vekur geri mér gott og bæti lífið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.