Sungið til jarðar

Þessi vika einkenndist af umhugsun og undirbúningi fyrir útför góðs vinar norður á Akureyri, Huldu Sigurbjörnsdóttur. Við Ásta ókum norður fyrsta maí. Kviðum nokkuð tali fjölmiðla um snjó á heiðum nyrðra sem allt reyndist orðum aukið. Ókum norður á alauðum vegi en á móti allhvössum vindi, eða 12 til 18 m/s. Og lítils háttar frosti. Komum til Akureyrar um þrjú leytið. Fengum inni á Hótel Norðurlandi.

Kvöldmat fengum við á Bautanum, steikta rauðsprettu. Við næsta borð sátu tiltölulega ung hjón með dreng á aldrinum átta til tíu ára. Þau hófu stórreykingar um leið og þau settust. Lásu matseðil og pöntuðu og konan fékk stórt bjórglas. Og drakk og reykti. Við Ásta gæddum okkur á ágætri rauðsprettunni. Þar kom að reykingahjónunum var borin ríkuleg kjötmáltíð. Og frúin lauk úr bjórglasinu.

Í huga mínum samgladdist ég hjónunum að hafa tilefni til að fá sér lúxusmáltíð og drakk kaffið mitt á meðan Ásta naut ístvennu. En þá byrjaði einskonar uppþot hjá hjónunum með steikina. Þjónustustúlka kom til þeirra og hlustaði á konuna kvarta og fór svo með diskinn hennar fram. Greinilegt að eitthvað var að. Og konan kveikti í sígarettu. Allnokkur stund leið þar til diskur konunnar kom inn aftur. Þjónustustúlkan var ekkert nema góðvildin og kurteisin. Lokaorð konunnar, sem ég komst ekki hjá að heyra, voru: „Ég er nú vön góðum sósum. Þessi flokkast ekki undir þær. Segjum þetta samt í lagi.”

Merkilegt hvað sum atvik í umhverfinu geta gert manni gott. Við Ásta urðum svo þakklát fyrir að hafa ekki náð þessum heimsborgaralega þroska sem konan með bjórinn og sígarettuna greinilega hafði náð fyrir löngu. Og í einfeldni okkar urðum við enn þakklátari fyrir okkar mat og þökkuðum afgreiðslustúlkunni innilega fyrir og lýstum ánægju okkar með hann.

Næsti dagur helgaðist af kveðjustund í Hvítasunnukirkjunni. Fjölmenni var við athöfnina sem var látlaus. Einleikur á orgel, ávörp, bæn og kórsöngur og minningarorð nýs forstöðumanns. Að útför lokinni bauð söfnuðurinn til erfisdrykkju í Lóninu. Voru þar bornar fram miklar og rausnarlegar veitingar sem fjöldi fólks þáði. Var allt andrúm í kringum þessa kveðjustund hið besta og góður rómur gerður að.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.