Í námi á Borgarspítalanum

Það er langt um liðið núna. Liðlega tuttugu ár. Lá þá á E-6 í viku eða tvær. Nokkuð hress síðustu dagana og orðinn þokkalega kunnugur frábæru starfsfólki. Reyndi ég að setja mig svolítið inn í störf þess. Hægust voru heimatökin að spjalla við konurnar sem mældu blóðþrýstinginn oft á dag sem og þær sem tóku blóð reglulega. Spurði ég þær einn morguninn hvort þær væru ekki til í að kenna mér að mæla blóðþrýsting.

Þær tóku fremur vel í það. Hófu að segja mér hvernig þetta gengi fyrir sig. Þóttist ég hafa nokkra reynslu eftir meira en hundrað blóðþrýstingsmælingar sem þær höfðu gert á mér. Eftir útskýringar var komið að verklega náminu. Létu þær mig koma púðanum fyrir á handlegg eins sjúkraliðanna, laglegri konu, ljóshærðri á miðjum aldri. Síðan dældi ég lofti þar til mælirinn sýndi yfir tvöhundruð.

Þetta tókst bærilega. Þá var mér rétt hlustunarpípa og þrýsti ég nemanum að æð neðan við olnbogabótina. Minnkaði þrýstinginn og hlustaði af mikilli samviskusemi. Þetta gerði ég tvisvar eða þrisvar. Loks hvað ég upp úrskurð: 180 yfir 130. „Ha,“ sagði konan, „130 neðri mörk? Ég vissi þetta. Mér hefur ekki liðið vel undanfarið.“ Og nú hófst umræða á milli sjúkraliðanna um veikindi konunnar. Fleiri dreif að.

Þegar ráðstefnan hafði staðið yfir í nokkurn tíma kom yfirhjúkrunarkona deildarinnar að og spurði hvað um væri að vera. Sjúkraliðarnir sögðu að sú ljóshærða væri veik. Hún hefði alltof háan blóðþrýsting. Yfirhjúkkan horfði á hana alvarleg á svipinn. „Hvernig funduð þið það út?“ „Hann Óli hérna mældi þrýstinginn hjá henni.“ Yfirhjúkkan leit á mig. Sagði svo við þá ljóshærðu: „Leyfðu mér.“ Hún tók um handlegg hennar og ýtti erminni upp. Þögn sló á hópinn.

Svo kom hún púðanum fyrir og dældi, hleypti lofti af og hlustaði. Endurtók það og kvað upp: „Hundrað og fimmtán yfir áttatíu og fimm.“ Hópurinn leystist upp og hvarf til starfa sinna. Hjúkrunarfræðingurinn leit á mig með sérkennilegum svip og yfirgaf stofuna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.