„… barnið gott, það er ástin.“

Óvenju ríkir af unaði dagar þessarar viku. Veisla með krásum á bók. Gömlum ástvini. Marglesnum. Nú eftir áratuga hlé. „Einu sinni þekktumst við,“ sagði vinur minn einn þegar við hittumst eftir tuttugu ár. Það var eins með bókina þessa sem minnti á sig á mánudaginn var og bað mig líta í sig. Hvað ég gerði. Og komst ekki frá henni.

Þú upplifir magnaða bók á nýjan hátt þegar þú hefur lifað flestar nótur tónstigans, bjartar og dimmar nætur. Og daga. Og lífsreynsla þín á langri ævi safnast í sarp. Þú átt því naumast orð til að lýsa fögnuði, hrifningu og aðdáun sem hún vekur í þér. Bókin. Þessi gamli vin. Enn á ný. Undrun þín á næmi og yfirburðasnilld höfundarins fær þig til að staldra við aftur og aftur og anda að þér.

Það er samt ekki alltaf góðilmur. Skítalykt og súrum mannaþef stafar af mörgum blaðsíðum. Eins og lífið er. Eins og fólkið er. Sjálft. Ýmiskonar mennskur skiptast á. Og þótt dimm þoka og mikið myrkur liggi yfir landinu, mönnum og málefnum á mörgum blaðsíðum, þá glittir á hina fegurstu ást eins og gullspesíu í forinni:

„Og, sagði hún, ég kom til þín í fyrsta sinn. Það vissi einginn maður. Ég kom í leiðslu af því þú hafðir sagt það, og hafði eingan vilja sjálf nema þinn. Ég hefði komið eins þó ég hefði þurft að vaða straumhart vatnsfall eða fremja ódæði. Og síðan var ég komin til þín. Ég vissi ekkert hvað þú gerðir við mig, ekkert hvað gerðist, ekki nema þetta eitt: þú áttir mig. Og þessvegna var alt gott; alt rétt.“

Íslandsklukkan. Hið ljósa man. Halldór Kiljan Laxness.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.