Að gráta hefir sinn tíma

Þeir komu inn í bekkinn, fjórir saman, klæddir svörtu og settust. Sá fyrsti við hliðina á mér, hinir utar. Þetta voru ungir menn á líkum aldri og sá látni. Hann var nýorðinn átján ára. Kirkjan var þéttsetin. Athöfnin hófst með forspili, orgel og fiðla: Yesterday. Presturinn fór með bæn. Kórinn söng Hærra minn Guð til þín. Pilturinn við hliðina á mér tók að þurrka tár.

Um alla kirkju sátu ungmenni og grétu. Þau reyndu að halda aftur af sér en réðu ekki við harminn. Páll Rósinkrans söng Drottinn er minn hirðir. Pilturinn við hlið mína sótti klút í vasa sinn. Í bekknum fyrir aftan grét piltur ákaflega. Presturinn talaði til syrgjenda. Hægur, yfirvegaður, fullur samúðar og skilnings: „Það á ekki að byrgja sorgina inni. Það á að vinna með henni. Það á að gráta. Piltar, þið líka. Þegar harmurinn nístir og engin orð finnast þá segið nafnið Jesús, Jesús, segið Jesús, það þýðir Guð hjálpar.“

Allt sem presturinn sagði var talað beint til syrgjendanna. Það voru frábær orð, frábær hjálparorð sem leiðbeina um viðbrögð við yfirþyrmandi sorg. Kirkjan var full af fólki. Stór hluti þess ungmenni. Piltar og stúlkur sem kvöddu vin sinn og félaga úr skóla og leik. Ungmenni við upphaf framtíðarinnar.

Maður hugsar til foreldranna og systkinanna. Það er mikil sorg í hjörtum þeirra. Nístandi sársauki. Spurningum um Guð ósvarað. Hvar var Hann? Og af hverju? Að athöfn lokinni safnast fólk á stéttinni framan við kirkjuna. Faðmar ástvini hins látna. Þétt. Tjá meðlíðan og samúð. Það er erfitt með orð.

Sigurður Ragnar Arnbjörnsson var fæddur 4. maí 1987. Hann lést í bílslysi við Jónasarlund í Öxnadal 17. júní síðastliðinn. Útför hans var gerð frá Keflavíkurkirkju í gær. Sr. Ólafur Oddur Jónsson jarðsöng.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.