Verkamaður

Á heimleið vestan af Seltjarnarnesi um tvöleytið í dag, – hvar við höfðum kvatt ung ættmenni sem flytja búferlum til Svíþjóðar með Norrænu í næstu viku, – akandi frá Hirtshals – og ókum Hringbraut, Ásta við stýrið, tók ég eftir manni á gangstéttinni. Hann var klæddur vinnugalla, óhreinum vinnugalla og með litla hliðartösku, svona kaffibrúsa og bitatösku.

Hann gekk rösklega og fráhnepptur vinnujakkinn hans flaksaðist og maðurinn virtist innhverfur og leit hvorki til hægri né vinstri og ég dró þá ályktun að hann væri að koma úr vinnu og væri á heimleið eftir tveggja vikna fjarveru og hlakkaði til að hitta sitt fólk, eiginkonu og börn sem myndu fagna honum og gleðjast innilega.

Og sem hann hefði heilsað og kysst börnin á kinnina og konuna á munninn og hlustað á börnin segja frá hápunktum vikunnar í lífi sínu færi hann í bað og ilmurinn af góðum mat tæki að berast um húsið og eiginkonan bankaði á baðherbergisdyrnar og færði honum glas með sætlegum veigum í og sælukennd og þakklæti leið um sálu mannsins sem kom ekki upp orði fyrir herpingi í hálsinum.

Og ég hugsaði sem svo að verkamaður getur átt sínar hamingjustundir þótt íslenska launakerfið krefji hann um 74 klukkustunda vinnuviku svo endar nái saman. Og þótt það hafi verið þannig ár eftir ár eftir ár að verkamaðurinn var eins og gestur heima hjá sér þá gat hann þó glaðst yfir því að fá sólarhrings frí tvisvar í mánuði.

Í huga mínum leit ég til baka og minntist áranna þeirra. Svo beygði Ásta af Hringbraut og inn á Bústaðaveg og þá var verkamaðurinn löngu horfinn. Að sjálfsögðu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.