Það er bílasýning í Fífunni í Kópavogi. Ég fór þangað. Afar langt síðan síðast. Svo langt að ég einu sinni man ekki hvenær. Svo ég dreif mig. Um hádegisbil. Margt kom til. Eitt af því er að bílinn minn verður 16 ára í haust. Hefur dugað okkur afar vel. Þótt margt væri á hann lagt. En það er önnur saga.
Auðvitað hugsar maður stundum um að endurnýja bílinn. Yngja svolítið. Þó ekki væri nema svo sem tíu til tólf ár. En það strandar auðvitað á peningum. Eins og allt annað. Eldri borgari á Íslandi og það úr verkamannastétt í þokkabót á ekki marga kosti í fjárfestingum. Þykist góður að eiga fyrir daglegum rekstri og mat.
En, semsagt, eins og karlinn sagði, þá ákvað ég að fara á þessa bílasýningu til að sjá það nýjasta í bransanum. Klæddi mig í hversdags múnderingu, 20 ára gamla safari úlpu sem ég keypti í Prag, trefil um hálsinn og sólgleraugu sem frú Ásta gaf mér í liðinni viku. Og alpahúfu að sjálfsögðu. Fór svo innan um margmennið tiltölulega hiklaus.
Þarna er margt um bílinn. Átti mér einn óskabíl til að skoða. Það helgast af því að fyrir svo átta árum var mér boðið í bílferð austur fyrir fjall og rýmið í bílnum var aldeilis yndislegt. Bæði frammí og aftur í. Og ég gekk rakleitt að tegundinni. En nú er búið að þjappa honum saman. Ég opnaði bílstjóramegin og þá kom kynnir til mín. Ungur maður sem tók að ryðja úr sér hrósi um bílinn.
Loks þegar ég komst að sagði ég honum að bíllinn hefði minnkað. ,,Það er ekki rétt,“ sagði ungi maðurinn, hann hefur stækkað.“ Og svo kom fyrirlestur um stækkunina. Ég bað hann að setjast undir stýrið. Hann færði sætið aftar og hallaði bakinu. Samt námu hnén á honum við stýrið. Þá bað ég hann að setjast í aftursætið. Það gat hann ekki nema færa bílstjórasætið fram. Eiginlega komst hann ekki í aftursætið.
Hvað um það. Það er langt síðan það hefur verið logið svona mikið að mér á jafn stuttum tíma. Þegar ég kom heim fór ég í sturtu. Maður yngist alltaf dálítið við að fara í sturtu. Annars er þetta góður dagur og ég finn fyrir mikilli velvild til fólks þótt það ljúgi dálítið að mér. Laug ekki Þormóður Kolbrúnarskáld af mikilli leikni í Gerplu? Hann er ekki verri fyrir það.