Hví grætur þú?

Það var blíðlega laðandi vorið sem andaði inn í tilveru okkar og umhverfi á föstudagsmorguninn. Snjórinn og frostið sem réði ríkjum á skírdag hörfaði hraðbyri undan hlýrri vorgolunni. Og það rigndi. Vorið kom þann morguninn. Langþráð.

Við mættum snemma á skírdagsmorgun í litla afdrepið okkar. Eftir langa fjarveru. Vegir auðir, þurrir og engin umferð. Og við héldum veislu. Orðaveislu. Af bókum. Félagar orð. Félagar bækur. Ásta las Tolstoy. Og prjónaði á milli. Ég horfi oft á hendurnar hennar prjóna. Og hún verður svolítið fjarræn. Við höfum samt ánægju hvort af öðru, svo ég vitni í setningu Indriða G. í Þjófi í Paradís? Og unum vel.

Náðarstund og tímaritið Hugur voru mitt lesmál. Mögnuð bók Náðarstund. Grein um heimspekinginn John Macmurray (1891-1976) í Hug, Persónan og félagsskapurinn, fangaði mig. Fróðlegt að lesa um skoðanir hans og viðhorf til trúar og trúaðra og finna í honum einskonar samherja.

Annars eiga textar Biblíunnar stóran sess á þessum dögum. Lásum Hallel á föstudaginn og að sjálfsögðu frásagnirnar af atburðunum, hvar segir frá Jesú, Orðinu og mannelskunni, sem valdamenn og trúarleiðtogar dæmdu til dauða og krossfestu við mikil fagnaðarlæti almúgans sem hélt sig hafa unnið einhverskonar sigur án þess að vita í hverju hann var fólginn. Og sagan endurtekur sig.

Í sjónvarpi horfðum við m.a. á Hreint hjarta, frásögu af presti Selfosskirkju. Þá setti okkur hljóð.

Og nú er páskadagur, á fyrsta degi vikunnar og við vöknuðum snemma meðan enn þá var dimmt og lásum um konurnar sem komu að gröfinni, tómri og Maríu sem heyrði sagt ,,Hví grætur þú?“

Gleðilega páska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.