Nú fyllist tilveran af bókmenntahátíð og rithöfundum. Tuttugu og fjórum höfundum hefur verið boðið á hátíðina. Lesbók Moggans er helguð henni. Það eru myndir af tíu rithöfundum, gestum hátíðarinnar, á forsíðunni. Inni í blaðinu eru viðtöl við þessa tíu og myndir af þeim. Þær eru misstórar. Tveir fá margfalt stærri myndir en aðrir. Ætli það sé gæðastimpill?
Mér hefur alltaf þótt skringilegt að heyra rithöfunda tala um sjálfa sig og verk sín. Skilst þó á sumum þeirra að það sé þáttur markaðssetningar. Honum verði að sinna. Útgefandinn verði að hafa tekjur af bókunum, þá bóksalinn, þýðandinn og loks höfundurinn.
Sofi Oksanen segir: Ég hef ekki haft tíma til að skrifa í eitt og hálft ár vegna bókmenntahátíða, þýðinga og kynningarstarfa.Tariq Ali talar um markaðstrú og verslunarheilkenni.
Ungur las ég að góðar bækur seldu sig sjálfar. Þegar dómur lesenda spyrðist út færi af stað hljóðlát hreyfing sem leiddi nýja lesendur inn í bókabúðirnar. En það er auðvitað eilíf spurning hvað sé góð bók. Við viljum fá að finna þær sjálf, ekki láta segja okkur hvaða bók sé góð.
Mörg dæmi eru um það að bækur sem hæst var látið með á útgáfudegi hurfu hraðast og gleymdust. Svo eru aðrar sem lifa tönn tímans og fylla hjartahólf lesenda sinna af ást og virðingu og þakklæti. Kannski er ósegjanlegt hvað það er sem gerir bók svo góða. Verðugt að velta því fyrir sér.
Góð orð og dagsönn.